22/12/2024

Frábær ferð í Borgarnes

Síðastliðna helgi fór eitt aðildarfélaga HSS, Umf. Geislinn, í Borgarnes og keppti í knattspyrnu en þar var haldið mikið knattspyrnumót í yngri flokkum. Jafnframt kepptu með Geislanum þrír drengir úr Leifi heppna í Árneshreppi og ein stúlka frá Neista á Drangsnesi. Líkt og undanfarin ár var um náið samstarf milli Umf. Kormáks og Umf. Geislans að ræða. Algjör metþátttaka var hjá Strandamönnum þetta árið.

Keppendur í sameiginlegum liðum Geisla og Kormáks voru um 70 talsins og þar af um 50 úr Strandasýslu og ekki er annað hægt að segja en aðstandendum krakkanna hafi hlýnað um hjartarætur þegar litið var yfir þennan fjölmenna og glæsilega hóp í skrúðgöngunni í upphafi móts. Frábær árangur náðist þetta árið en þrír bikarar fengust fyrir fyrsta sæti. Ekki er síður mikilvægt að keppendur þessara félaga voru til fyrirmyndar í hegðun og framkomu. Glæsileg ungmenni í alla staði.

Mikill fjöldi foreldra fylgdi börnum sínum en afar mikilvægt er að börnin finni fyrir stuðningi og áhuga foreldra. Þjálfarar Geislans vilja þakka öllum þeim sem komu að þessu móti, án þeirrar hjálpar er svona ferð illframkvæmanleg.

Ljósm. Þorvaldur Hermannsson, framkvæmdastjóri HSS