22/12/2024

Frá Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík

Ferðaþjónar á Ströndum eru margir bjartsýnir á ferðasumarið enda er óvenjulega mikið af skemmtilegum viðburðum framundan í sumar á svæðinu – uppákomur, sýningar og hátíðir. Ferðamenn eru farnir að sjást hér um slóðir, þó líka hafi frést af nokkrum erlendum gestum síðustu daga sem hafa snúið frá vegna þess að enn er ófært um Tröllatunguheiði. Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík er farin að undirbúa sumarstarfið af fullum krafti, en hún verður opin í Félagsheimilinu á Hólmavík frá 9-20 alla daga frá 1. júní – 31. ágúst.

Arnar S. Jónsson sem hefur gegnt hlutverki andlegs leiðtoga Upplýsingamiðstöðvarinnar á Hólmavík síðasta árið lét af störfum um helgina. Við leiðtogahlutverkinu af honum tekur upplýsingatröllið og þjóðfræðingurinn Jón Jónsson. Um mánaðarmótin næstu þegar miðstöðin verður opnuð í höfuðstöðvum sínum á Hólmavík bætist síðan Viktoría Rán Ólafsdóttir (frá Svanshóli í Bjarnarfirði) sem hefur numið alþjóðaviðskiptafræði í hóp starfsmanna. Arnar vill af þessu tilefni koma á framfæri kærum þökkum til þeirra ferðaþjóna á Vestfjörðum sem hafa átt við hann gott samstarf og samskipti síðustu árin.

Tekin hefur verið upp samvinna sem gæti heitið Spurt og svarað við vefinn www.strandir.saudfjarsetur.is. Þar undir tenglinum Spjalltorg geta menn skilið eftir einfaldar eða flóknar spurningar um ferðaþjónustu á Ströndum og svör eru þá sett jafnóðum inn ef þau eru fyrir hendi. Hugmyndin er að bæði ferðafólk og heimamenn geti sent inn spurningar og einnig geti þeir sem eru í forsvari fyrir ferðaþjónustu á svæðinu leitað eftir upplýsingum um það sem þeir þekkja ekki nógu vel sjálfir.

Helstu nýjungar og breytingar í ferðaþjónustunni á Ströndum í sumar eru þessar:

Borðeyri:
* Tangahús – Borðeyri: Nýtt gistihús sem opnar siðari hluta júní í sumar, farfuglaheimili.
* Verslunin Lækjargarður hefur leyst Kaupfélagið á Borðeyri af hólmi.
* Tjaldsvæði á Borðeyri verður bætt fyrir sumarið og sér verslunin Lækjargarður um það.

Sunnan Hólmavíkur:
* Snartartunga: Starfsemi hestaleigu þar hefur verið hætt.
* Broddanesskóli í Kollafirði: Starfsemi með svefnpokagistingu hefur verið hætt.
* Ferðaþjónustan Kirkjuból: Gistirými aukið um rúmlega helming, úr 10 rúmum í 23.

Hólmavík:
* Tjaldsvæði stækkað og aðstaða bætt, m.a. fyrir húsbíla.
* Sundlaugin sem opnuð var á Hólmavík í fyrrasumar verður nú opin yfir sumarið frá 7-21 virka daga og 10-21 um helgar.
* Galdrasýningin verður opin lengur fram á haustið eins og í fyrra, til 15. september.
* Opnunartími á Upplýsingamiðstöð á Hólmavík lengdur – er nú frá 9:00-20:00 alla daga vikunnar frá 1. júní – 31. ágúst.
* Nýir rekstraraðilar hafa tekið við rekstri veitingarstaðarins Café Riis.
* Strandagaldur heldur Jónsmessuhátíð á Hólmavík með sögumannaívafi – 25. júní.
* Bæjarhátíð verður haldin á Hólmavík í fyrsta sinn – Hamingjudagar á Hólmavík 1.-3. júlí.

Drangsnes:
* Ný útisundlaug opnar um mitt sumar.
* Sett hefur verið upp bensínstöð á Drangsnesi aftur – Essókortasjálfsali.
* Bær III – opnunartími styttist, er frá 1. júní – 31. ágúst þetta árið.
* Sundhani gerir út frá Drangsnesi þetta árið

Norðan Hólmavíkur:
* Galdrasýningin opnar sýningu sína á Klúku í Bjarnarfirði í sumar – Kotbýli kuklarans. Opnunin er dagsett 23. júlí.
* Reimar Vilmundarson verður með áætlun frá Norðurfirði í júlí að Hornvík á föstudögum og Reykjarfirði nyrðri á þriðjudögum.
* Við Minja- og handverkshúsið Kört í Trékyllisvík verður í sumar afhjúpaður minnisvarði um galdraofsóknir í Trékyllisvík.