26/12/2024

Fjarnámsver á Hólmavík

300-jon-jonssonAðsend grein: Jón Jónsson
Nokkuð hefur verið fjallað um fjarnámsver á Hólmavík frá því umræða um að þörf væri á slíku námsveri hófst af krafti fyrir ári. Eftir því sem ég best veit var ferlið það að (þáverandi) sveitarstjórn samþykkti tillögu um að skoða hvort koma ætti slíku námsveri á laggirnar og Viktoría Ólafsdóttir atvinnuráðgjafi Atvest á Hólmavík var í mars 2006 fengin til að kanna þörfina. Niðurstöður hennar sem voru gerðar opinberar í september 2006 má nálgast undir þessum tengli. Í stuttu máli má segja að mikill áhugi kom fram um að slíkt námsver yrði starfrækt og einnig kom í ljós að nemendur sem stunda fjarnám og eru búsettir á Ströndum voru miklu fleiri en flesta hafði grunað.

Í framhaldi af þessu fékk (núverandi) sveitarstjórn eða sveitarstjóri Kristínu S. Einarsdóttur kennara við Grunnskólann á Hólmavík og yfirlýstan áhugamann um fullorðinsfræðslu og námsver til að gera skýrslu um hugsanlegt húsnæði og útfærslu á fjarnámsverinu í ágúst 2006. Sú skýrsla var gerð opinber í október og voru megin niðurstöður hennar að ekki væri eftir neinu að bíða og að mikilvægt væri að stofna námsver. Í skýrslunni sem má nálgast undir þessum tengli voru auk þess ræddir ýmsir kostir hvað varðar húsnæði.

Ákvörðun sveitarstjórnar á fundi í október 2006 var síðan sú að stefna að stofnun fjarnámsversins haustið 2007. Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri hefur svo nýlega upplýst að það sé ennþá stefna sveitarstjórnar að koma fjarnámsveri á laggirnar á þeim tíma og unnið sé að því þrátt fyrir niðurskurð í fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2007 og nauðsyn á aðhaldi í fjármálum sveitarfélagsins.

Þurfum við fjarnámsver á Hólmavík?

Já.

Fjarnámsver er ein besta hugmynd sem ég hef heyrt lengi um verkefni sem hægt væri að ráðast í hér á Ströndum og eðlilegt er að sé á könnu sveitarfélaga. Framboð á námi á ólíkum skólastigum sem hægt er að taka í gegnum venjulega heimilistölvu, meira eða minna óháð staðsetningu og búsetu, er alltaf að aukast. Jafnvel er hægt að stunda hefðbundið háskólanám eins og þjóðfræði í gegnum tölvu í fjarnámi og fylgjast með og horfa á upptökur af öllum kennslustundum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þau svæði sem liggja utan við þau svæði landsins þar sem staðnám er í boði, að mæta þessu sífellt aukna framboði og geta boðið því fólki sem stundar eða vill stunda fjarnám góða aðstöðu.

Um leið er nauðsynlegt að skapa aðstæður sem geta gert slíkt einstaklingsbundið fjarnám að þeirri félagslegu athöfn sem nám er í eðli sínu. Í heimi sem einkennist í æ ríkara mæli af fullorðinsfræðslu og símenntun er þetta lífsspursmál fyrir jaðarbyggðir, einfaldlega til að þær séu samkeppnishæfar sem búsetukostur.

Að þessu sögðu er rétt að taka eitt fram sem er lykilatriði fyrir umræðuna: Ég er alls ekki viss um að ég sé að meina það sama og aðrir þegar ég nota orðið fjarnámsver. Ég er heldur ekki viss um að Ásdís Leifs, Stína Einars og Bjössi Péturs og fleiri séu að tala um sama fyrirbærið þó þau noti sama orðið hér á spjallinu á strandir.saudfjarsetur.is (sjá þennan og þennan spjallþráð). Þannig má vel vera að allir séu sammála um allt, nema hvað felst í fyrirbærinu (og líklega hvar best sé að það sé til húsa).

Það er algjört lykilatriði fyrir umræðuna að menn skilji hvað um er rætt varðandi stofnkostnað, rekstrarkostnað, hugsanlegan ávinning og framkvæmdina sjálfa. Því er mjög mikilvægt að fá að vita hvað ráðamennirnir, sveitarstjórnarmennirnir okkar, eiga við með hugtakinu fjarnámsver. Hvernig er þetta hugsað? Sjálfur hyggst ég útskýra hér á eftir hvað ég tel að fjarnámsver sé og þurfi að vera. Ég minni á að það er á grundvelli þeirrar skilgreiningar sem mér finnst óskaplega áríðandi að því verði komið upp. Það mat mitt að ávinningurinn sé miklu meiri en kostnaðurinn er líka byggt á þeirri skilgreiningu.

Hvað er þetta fjarnámsver?

Fyrir það fyrsta er rétt að taka skýrt fram að fjarnámsverið sem þarf á Hólmavík er ekki skóli í mínum huga. Þar fer ekki fram kennsla, þar er ekki þörf á leiðbeinanda, kennara eða skólastjóra. Fjarnámsverið er fyrst og fremst aðstaða fyrir þá sem eru í námi til að komast út af heimilinu og frá eldhúsborðinu með námið sitt, vinnustaður þar sem hægt er að skrifa ritgerðir og leysa verkefni í næði og ró, lesa námsbækur og lesa undir próf. Síðast en ekki síst er fjarnámsver staður þar sem maður hittir aðra nemendur og getur spjallað dálítið við þá um námið og myndað tengsl við þá, staður þar sem nemendur geta lært saman, kennt hverjir öðrum. Fjarnámsverið er aðstaða fyrir fólk í ólíku námi, ekki skóli.

Í fjarnámsveri þurfa að vera góð borð og stólar til að læra við í þægilegum lessal, þar þarf að vera friður og ró. Þar þarf að vera læst hirsla fyrir hvern nemenda til að geyma skóladótið sitt í, þar þarf að vera kaffiaðstaða og hópvinnuherbergi þegar menn ætla að leysa verkefni saman. Þar þurfa að vera nokkrar tölvur fyrir nemendur, því margir vinna verkefnin sín og taka próf og slíkt í gegnum tölvukerfi skólanna sem þeir taka námskeið hjá. Þar þarf að vera þráðlaust internet sem þeir sem koma með ferðatölvuna sína geta tengst, þar þarf að vera öflugur prentari, þar þarf að vera ljósritunarvél. Inn í þessa aðstöðu þurfa nemendur að geta komist hvaða tíma sólarhringsins sem er þannig að einhverskonar lyklakerfi þarf.

Fjarfundabúnaður er í Grunnskólanum á Hólmavík og stundum er boðið upp á námskeið í gegnum hann á ýmsum ólíkum sviðum. Fínt mál. Svo er Fræðslumiðstöð Vestfjarða með fjölmörg námskeið hér á staðnum og fleiri aðilar standa fyrir námskeiðahaldi hér. Hugmyndir eru meira að segja uppi um eflingu á þessu sviði á mörgum vígstöðvum og jafnvel er hugað að atvinnusköpun í héraðinu í tenglsum við námskeiðahald, því að Strandagaldur og Þjóðtrúarstofa á Ströndum hafa mótað stefnu um sókn á sviði menntatengdrar ferðaþjónustu sem verður framfylgt eftir því sem fjármögnun leyfir. Þetta námskeiðahald allt saman og fjarfundabúnaðurinn í skólanum er fínt og jákvætt innlegg í samfélag sem er í óða önn að mennta sig, en það kemur fjarnámsverinu sem þarf að koma á laggirnar á Hólmavík ekkert við að mínu mati. Það er til að mynda engin sérstök ástæða til að fjarfundabúnaður og fjarnámsver séu í sama húsi, alla vega geta þau alls ekki verið í sama sal.

Ég hef líka oft heyrt í umræðunni að fjarnámsverinu er ruglað eða blandað saman við væntanlegt Héraðsskjalasafn og stundum er því ruglað saman við framhaldsskóla í heimabyggð fyrir 16-18 ára unglinga. Þetta er grundvallarmisskilningur. Hvoru tveggja af þessu væri frábært að koma upp, það fyrra er sveitarstjórn með í undirbúningi og hið síðara er ríkisvaldið nú að gera tilraun með á Patreksfirði til þriggja ára og hyggst eflaust koma upp víðar í framhaldinu. Þjóðfélagslegar breytingar og tækifærin sem opnast með netsambandi kalla beinlínis á að nám verði í síauknum mæli hægt að stunda í heimabyggð. Það er hins vegar ekkert samband milli fjarnámsversins, Héraðsskjalasafns og framhaldsskóla í heimabyggð. Ekki er heldur nauðsynlegt að samband sé milli fjarnámsvers og Héraðsbókasafns eða grunnskóla.

Umræða þar sem þessu er öllu grautað saman og látið eins og ekki sé hægt að opna fjarnámsver án þess að eitthvað annað komi til um leið, öll málin séu leyst í einu, er einungis til þess fallin að tefja málið – gera einfalt mál óþarflega flókið. Fjarnámsver þarf ekki að tengjast öðrum stofnunum nokkurn skapaðan hlut, þó það geti svo sem vel verið niðurstaðan að það deili húsnæði með einhverri annarri stofnun.

Hvað kostar að stofna fjarnámsver?

Hér hefur áður verið rakið gróflega hvaða búnað þarf til að opna fjarnámsver og af þeirri upptalningu má ráða að ekki er um stórkostlega fjárhæðir að ræða. Ef menn vilja byrja með allt klárt gæti að mínu mati þurft 1,5-2 milljónir í startið til að kaupa búnað, kostnaðurinn við að koma slíku veri á laggirnar er nú ekki meiri. Og það eru meira að segja fullt af tækifærum til að fjármagna þetta. Væru ekki Verkalýðsfélög og Lífeyrissjóðir okkar Strandamanna, bankar og sparisjóðir til í að taka þátt í slíku verkefni?

Og svo er það Vaxtarsamningurinn, þar eru ýmsir möguleikar. Ef farið væri út í samvinnuverkefni við Háskólasetur Vestfjarða (sem hlýtur að vera tilbúið í samstarf enda eru háskólanemar á Ströndum ekkert síður en á Ísafirði), Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Þjóðtrúarstofu á Ströndum svo dæmi sé tekið er komið á samstarf milli svæða, stofnanna, sveitarfélaga og fyrirtækja. Þá væri hægt að gera umsókn í mennta- og rannsóknaklasa Vaxtarsamningsins og fá helming þessarar upphæðar eða hana alla úr þeim potti.

Fundur í mennta- og rannsóknaklasa Vaxtarsamningsins var í janúar og þar var rætt um verkefni sem umsóknir liggja fyrir í og þeim forgangsraðað. Ef ég man rétt verða nýjar verkefnisumsóknir teknar fyrir í þessum klasa í maí. Ef fyrrnefndir aðilar leggja saman í umsókn þar sem farið væri fram á fjárstuðning við að koma fjarnámsveri á Hólmavík á laggirnar get ég ekki betur séð en að það verkefni væri styrkhæft úr Vaxtarsamningunum og fellur einmitt mjög vel að meginmarkmiðum hans. Þar þyrfti auðvitað að útlista með sannfærandi hætti að rekstur versins í framhaldinu væri þaulhugsaður og tryggður, en mér sýnist sveitarstjórn Strandabyggðar ætla hvort sem er að tryggja reksturinn miðað við samþykktir hennar.

Húsnæði undir fjarnámsverið hefur verið fjallað um í skýrslu Kristínar S. Einarsdóttur, en ég vil benda á að miklu mikilvægara er að koma fjarnámsverinu upp, en að það sé frá upphafi í fullkomnu húsnæði. Námsverið þarf engar fastar innréttingar. Staður eins og þessi hlýtur líka að þróast og taka breytingum og þegar fjarnámsverið er komið af stað kemur betur í ljós hvað til þarf. Rekstrarkostnaður er auðvitað nokkur á húsnæðinu – tryggingar, rafmagn og netsamband. Húsnæðið þarf að þrífa og einhvern tæknimann eða umsjónarmann þarf nauðsynlega. Ýmsir möguleikar eru á að leysa það með starfsfólki sveitarfélagsins eða einhvers konar þjónustusamningum við stofnanir, félög eða fyrirtæki. Þetta eru því varla stórbrotin vandamál, miklu frekar tæknileg úrlausnarefni.

En fjarnámsverið þarf að koma.

Jón Jónsson, Kirkjubóli.