25/04/2024

Kjósum Karl til forystu

Aðsend grein: Björn Davíðsson, Ísafirði
Um næstu helgi stendur yfir prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Mikið mannval er í framvarðarsveitinni og vandi að velja. Til að auðvelda valið vil ég minna á afar laginn mann sem hefur komið í gegnum þingið, þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu, tveimur þingsályktunum, með því að beita hógværum og jákvæðum málflutningi. 
 

Þingmannsefnið sem hér um ræðir er Karl V. Matthíasson prestur og fyrrverandi alþingismaður. Það á varla að þurfa að kynna hann – svo þjóðþekktur er hann af skrifum sínum og störfum í þágu fólks hér í kjördæminu og reyndar á landinu öllu. Karl þekkir vel til í kjördæminu því þar  hefur hann búið og lifað stærstan hluta ævi sinnar. Hann er kvæntur Sesselju Björk Gumundsdóttur, leikskólakennara, sem  er borin og barnfædd á Snæfellsnesi og eiga  þau þrjú börn. Karl hefur starfað sem sjómaður, kennari, prestur og alþingismaður í kjördæminu og vinnur nú sem prestur á svið áfengis- og fíkniefnamála. Í því starfi liggja leiðir hans víða um land – ekki síst í Norðvesturkjördæmi því hann sækir Staðarfell í Dölum reglulega heim.

Karl hefur lengi starfað að stjórnmálum. Hann tók þátt í stofnun Samfylkingarinnar og gegnir þar trúnaðarstörfum. Hann nýtur álits og fylgis þeirra sem til hans þekkja, enda var hann kosinn í framkvæmdastjórn flokksins á síðasta landsfundi. Þau tvö ár sem hann sat á þingi fylgdist hann sérstaklega vel með heima í héraði með reglulegum heimsóknum á vinnustaði og stærri samkomur og þann sið hans kann ég vel að meta.

Það skiptir miklu máli að til forystu fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi veljist maður sem hefur sýnt einstaka hæfni til að umgangast fólk í gleði og sorg. Heiðarlegur maður sem sem tryggir hag fólks með hógværð hlýju og góðlátlegri kímni. Við þekkjum vel mannkosti Kalla og þá skulum við sérstaklega muna í prófkjörinu dagana 28. og 29. október og gera okkar til að tryggja að allir íbúar Norðvesturkjördæmis njóti þeirra á næstu árum.  Prófkjörið verður fljótlega auglýst nánar og hvet ég alla þá sem áhuga hafa á framtíð okkar að taka þátt í því og kjósa Kalla. Í fyrsta sætið.

Björn Davíðsson, Ísafirði.