22/12/2024

Eva í Djúpavík er Strandamaður ársins 2011

Æsispennandi kosningu um hver væri Strandamaður ársins 2011 er nú lokið. Þegar atkvæði höfðu öll verið yfirfarin og talin var niðurstaðan sú að Eva Sigurbjörnsdóttir hótelstjóri á Hótel Djúpavík fær þennan titil og heiðurinn sem honum fylgir. Eva hefur ásamt Ásbirni manni sínum rekið Hótel Djúpavík frá árinu 1985. Þau eru frumkvöðlar í ferðaþjónustu á Ströndum og hafa sýnt ótrúlega þrautseigju og úthald við reksturinn. Eva hefur heldur betur látið til sín taka í baráttu fyrir málefnum Árneshrepps, byggðinni þar og samgöngum, er í sveitarstjórn og virk í stjórnmálastarfi.

Eva tók tíðindunum af kosningunni ljómandi vel, þegar ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is hafði samband við hana til að færa henni tíðindin og vildi koma á framfæri bestu kveðjum til Jóns Halldórssonar og Arnars Jónssonar sem voru keppinautar hennar í síðari umferð kosningarinnar. Nánar verður rætt við Evu hér á vefnum fljótlega.

strandir.saudfjarsetur.is óska Evu Sigurbjörnsdóttur í Djúpavík hjartanlega til hamingju með titilinn Strandamaður ársins 2011. Hún á svo sannarlega skilið hrós fyrir atorku sína og dugnað á mörgum ólíkum sviðum.