22/12/2024

Eitthvað fallegt! í Hólmavíkurkirkju

Það verður mikið um dýrðir í Hólmavíkurkirkju þegar söngvaskáldin Ragnheiður Gröndal, Kristjana Stefáns og Svavar Knútur halda þar jólatónleika föstudaginn 15. desember undir yfirskriftinni Eitthvað fallegt. Tónleikarnir hefjast klukkan 21, en þeir heita eftir samnefndri hljómplötu þeirra sem kom út hjá Dimmu útgáfu árið 2014.

Á tónleikunum verða bæði flutt sígild íslensk jólalög og nokkur frumsamin lög eftir listafólkið og er áherslan lögð á látleysi, einfaldleika og einlægni í flutningi. Allur hljóðfæraleikur er í höndum tríósins og er hljóðheimnum þannig haldið eins lágstemmdum og mögulegt er. Ragnheiður, Kristjana og Svavar leggja uppúr því að stemmningin á tónleikunum verði líkust kvöldvöku eða góðri samverustund. Þetta á því að vera hin fínasta stund fyrir alla fjölskylduna.

Miðaverð á tónleikana er kr. 3.500 en ókeypis er fyrir börn 14 ára og yngri. Þá er sérstakur afsláttur fyrir eldri borgara, öryrkja og atvinnulausa. Hluti miðaverðs tónleikanna rennur til góðs málefnis. Nánari upplýsingar má finna á Facebook-viðburði.