26/12/2024

Bylting orðin í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum

GSM á GjögriEkkert minna en bylting hefur orðið í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum og á siglingaleiðum og miðum á Húnaflóa eftir að Vodafone kveikti á langdrægum GSM-sendi á Steinnýjarstaðafjalli ofan við Skagaströnd. Sendirinn dregur 100 kílómetra í sjónlínu, en ennþá er eftir að fínstilla sendinguna og mæla útbreiðsluna. Við þetta kemur inn GSM-samband víða á Ströndum þar sem sjónlína er yfir á Skaga, en um 50 km eru í loftlínu frá Skagaströnd að Gjögri.

Enn sem komið er geta viðskiptavinir Vodafone einir notað þjónustuna, en það hlýtur að teljast ótrúlegt og óviðunandi ef að Síminn bíður lengi með að semja um aðgang að dreifingu Vodafone á þeim svæðum sem þeirra kerfi nær ekki til. Rétt er þó að minna á að alls staðar þar sem GSM-samband er á annað borð er hægt að hringja í neyðarlínuna 112 úr GSM-símum, sama við hvaða símafyrirtæki menn skipta og sama hvaða útbreiðslu þau bjóða sínum viðskiptavinum upp á.

GSM-samband ætti samkvæmt landakorti ritstjórnar strandir.saudfjarsetur.is nú að vera komið á norðanverðum Stikuhálsi og í sunnanverðum Bitrufiirði með þessari framkvæmd og eins í Bitrufjarðarbotni. Aftur frá Krossárdal í Bitru og um Ennisháls sunnanverðan. Einnig úr Kollafirði innan við Kollafjarðarnes og að Smáhamrahálsi í Steingrímsfirði en ekki hefur verið samband á því svæði. Þá er líklega komið samband frá Drangsnesi og á leiðina þaðan í Bjarnarfjörð, um alla Balana, í Kaldbaksvík og að Veiðileysufirði norðanverðum. Þá ætti að vera samband á Kjörvogi og Gjögri í Árneshreppi. 

Fréttaritari er hins vegar ekki viss um að samband náist innan við Kaldrananes og Ásmundarnes í Bjarnarfirði og hugsanlega skyggir Vatnsnesið á svæðið yst í Hrútafirði þar sem ekki hefur verið GSM-samband. Kollafjörður er örugglega í skugga að mestu leyti og einnig er ólíklegt að samband sé í Trékyllisvík, Norðurfirði, innanverðum og sunnanverðum Reykjarfirði eða við veginn í Veiðileysufirði.

Þessi uppbygging Vodafone á langdrægum GSM sendum er bæði metnaðarfull og viðamikil, að sögn Hrannars Péturssonar hjá Vodafone, því ætlunin er að koma allt að 50 slíkum sendum upp um allt land á næstu mánuðum eða fyrir júnílok. Drægni þeirra er mjög mikil og mun þessi uppbygging því skipta miklu máli á miðunum í kringum Ísland og einnig upp til fjalla. Sjónlína frá sendinum er skilyrði fyrir sambandi og því eru þeim valdir staðir þar sem sendingar þeirra nást sem víðast. Reiknað er með að langdrægur sendir verði einnig staðsettur á sunnanverðum Ströndum og þá mun dreifisvæðið enn stækka.

Verkefni Vodafone við uppbyggingu langdrægu sendana er óskylt uppbyggingu GSM-sambands á vegum Fjarskiptasjóðs þar sem byggt verður upp GSM-samband á dauðum blettum á ákveðnum stofnvegum. Vodafone mun einnig sjá um síðari áfanga þeirrar uppbyggingar sem ætlunin er að ljúka á árinu 2008.