22/12/2024

Bundið slitlag komið á helming Arnkötludals

Á visir.is er sagt frá því að lagning bundins slitlags á nýja veginn um Arnkötludal sé ríflega hálfnað og vonast verktakinn til að verkinu ljúki á næstu átta til níu dögum, ef ekki rignir mjög. Þessi nýi 25 kílómetra langi vegur um Arnkötludal, tengir saman byggðir á Ströndum og í Reykhólasveit og Dölum allt árið og markar þáttaskil í vegamálum. Vegalengdir milli Hólmavíkur og staða á Vesturlandi, Suðvesturhorninu og Suðurlandi styttast um 40 kílómetra yfir vetrartímann, en mun meira milli Hólmavíkur og sunnanverðra Vestfjarða og Dala. Hægt verður í fyrsta sinn að aka á bundnu slitlagi inn á hringveginn, í Norðurárdal.

Ingileifur Jónsson verktaki og hans menn eru búnir að leggja slitlag á 13 kílómetra og þar á meðal á erfiðustu kaflana sem liggja hæst. Í rauninni er aðeins sjálfur Arnkötludalurinn eftir, Strandasýslu megin. Ingileifur segir í viðtalinu við visir.is að enn standi það sem áður var sagt, að vegurinn verði opnaður fyrir mánaðamót, en segir það skýrast betur í lok þessarar viku.

Vegurinn er lokaður fyrir allri umferð.