22/12/2024

Bridgekvöld í Búðardal

david

Félagar í Bridgefélaginu á Hólmavík hafa fyrir vana að hittast á hverju sunnudagskvöldi yfir veturinn í Björgunarsveitarhúsinu á Hólmavík og spila bridge. Í gær brugðu spilamenn þó út af vananum og héldu í Búðardal og spiluðu þar á dvalarheimilinu Silfurtúni. Markmið ferðalagsins var að hitta og gera sér glaðan dag með góðum félaga, Davíð Stefánssyni frá Saurhóli, en hann á stórafmæli á næstunni, verður áttræður á aðfangadag. Síðustu vetur hefur Davíð stundum ferðast til Hólmavíkur til að taka þátt í spilamennskunni þar á sunnudagskvöldum, en treystir sér ekki til þess lengur. Það var glatt á hjalla við spilaborðin í Búðardal í gær, en átta pör af spilamönnum reyndu þar með sér í tvímenning.

Þegar úrslit voru skoðuð í lok dags kom í ljós að Þorsteinn Newton á Hólmavík og Jón Jónsson á Kirkjubóli á Ströndum höfðu orðið efstir að þessu sinni. Í öðru sæti voru Jón Stefánsson á Broddanesi og Eyvindur Magnússon á Reykhólum. Í þriðja sæti varð svo Davíð Stefánsson sjálfur og spilafélagi hans Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum.

Meðfylgjandi símamynd tók Ingimundur Pálsson.