22/12/2024

„Blaðsíða 11 er aldrei eins“

Viðtal: Sara Jóhannsdóttir og Arnór Jónsson
Í vetur setti Leikfélag Hólmavíkur upp leikritið Með táning í tölvunni og nú er nýlokið leikferð með farsann hringinn í kringum Vestfirði. Fréttamaður strandir.saudfjarsetur.is yfirheyrði tvo yngstu meðlimi sýningarinnar um hvernig það væri að vera að taka þátt í uppsetningu á leikriti með Leikfélagi Hólmavíkur og hvað stæði helst upp úr. Sara Jóhannsdóttir og Arnór Jónsson eru fjallkát með ævintýrin sem þau hafa lent í með leikfélaginu í vetur. Ein sýning af leikritinu er enn eftir og verður hún í Árnesi í Trékyllisvík þann 16. júní næstkomandi.

Hvernig var að leika með Leikfélagi Hólmavíkur?
Arnór: Það var mjög gaman, frábært fólk.
Sara: Já, það var gaman að vinna með fólkinu, frábært!

Hvað kom ykkur mest á óvart?

Arnór: Hvað það var auðvelt að læra textann sinn.
Sara: Já, ég er sammála og líka það að ég varð aldrei leið á að mæta á æfingar þó þær væru margar og langar.
Arnór: Já, það var alltaf gaman á æfingum.

Finnst ykkur þið vera lík karakterunum sem þið leikið?

Arnór: Nei, alls ekki. Gulli er geðveikt pirrandi karakter.
Sara: Nei.
Arnór: Jú víst, þið Vala eruð lúmskt líkar. Þið gerið aldrei neitt af ykkur, eruð alltaf í góðu skapi og mjög kurteisar.
Sara: Ókei, pínulítið þá.

Hvað fannst ykkur skemmtilegasta atriðið í leikritinu?

Sara: Bíddu aðeins, ég þarf að fara í gegnum leikritið.
Arnór: Þegar að ég hitti Mæju í fyrsta skiptið. Ég kem niður þegar að Mæja er nýbúin að tala um kynlífsvanda Steina og hún heldur að við séum að sofa saman.
Sara: Æææi, hjálpaðu mér.
Arnór: Ég veit ekkert hvað er uppáhalds atriðið þitt. Við erum aldrei inni á sviðinu á sama tíma.
Sara: Jú, í byrjuninni. Það er örugglega atriðið á blaðsíðu 11 í handritinu, því að hún er ALDREI eins á neinni sýningu! Það er atriði þegar að ég, Mæja og Jón Gunnar erum að rífast um hvort að Gulli megi koma í heimsókn eða ekki.

Hvernig var stemmingin í leikferðinni?

Sara: Geðveik, það var frúkuð stemming.
Arnór: Það var æðislega gaman, allir í góðu skapi allan tímann


Væruð þið til í að leika með leikfélaginu á Hólmavík í framtíðinni?

Sara: Auðvitað, mig langar það mikið.
Arnór: Mig langar það, en ég er að fara annað í skóla svo að það verður ekki strax. Ef ég bý hér í framtíðinni þá mun ég pottþétt gera það.

Hver er klikkaðastur í leikfélaginu?

Sara: Hugsum nú vel!
Arnór: Pabbi og Einar Indriða.
Sara: Árný Huld og Jón Jónsson.

Hafið þið öðlast aukna frægð á Hólmavík eftir leikritið?

Sara: Aðallega hjá yngri börnunum, ég hef einu sinni gefið eiginhandaráritun, það var fjör.
Arnór: Já, yngri krakkarnir kalla mig stundum Gulla. Ég hef líka gefið eina eiginhandaráritun.

Hvað var skemmtilegast svona í heildina?
Arnór og Sara: Frumsýningin!
Sara: Leikferðin stóð líka uppúr.

Voruð þið stressuð fyrir frumsýninguna?
Arnór:
Nei
Sara: Já, en líka spennt.
Arnór: Ég ældi fyrir eina sýninguna, en það var af því að Sara gaf mér hnetu.
Sara: Við dönsuðum alltaf á litla sviðinu fyrir sýningar á Hólmavík því að þá varð ég minna stressuð.

Værirðu til í að verða leikari?
Arnór: Já, en bara áhugaleikari.
Sara: Ég mun alveg örugglega leika með leikfélagi í framtíðinni því þetta er rosa gaman.

Hvernig gekk samstarfið?
Sara: Það er alltaf gaman að vinna með svona æðislegu fólki sem að kom að sýningunni.
Arnór: Þetta var allt frábært fólk og Arnar, sem að er ekki búinn að fá neitt hrós í þessu viðtali, er frábær leikstjóri.

Hvar var skemmtilegast að sýna?
Arnór: Í Súðavík
Sara: Já, á Súðavík, það var ævintýri, við þurftum að smíða sviðið sjálf.
Arnór: Já það var fjör, eða ég smíðaði samt ekkert, ég fór bara út í bæ að hitta krakka. Svo gleymdi Inga textanum sínum á sýningunni þegar hún og Steinar hlupu hring í salnum og allir áhorfendurnir hlógu geðveikislega mikið.
Sara: Já og við fengum fullt af pizzum. Það var snilld.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is þakkar Arnóri og Söru kærlega fyrir spjallið og óskar þeim og Leikfélagi Hólmavíkur alls hins besta í framtíðinni.

640-vidtal-arnor-sara

Sara og Arnór á sviðinu í Bolungarvík – ljósm. Jón Jónsson