22/12/2024

Björn á Melum er Íslandsmeistari í hrútadómum

Afar fjölmennt var á Íslandsmeistaramóti í hrútadómum sem fram fór í frábæru veðri á Sauðfjársetrinu í Sævangi á sunnudaginn. Þátttaka í þuklinu sjálfu hefur aldrei verið betri, en þar um 50 manns dæmdu hrútana Koll, Berg, Gimstein og Hrein. Það var Björn Torfason á Melum í Árneshreppi sem sigraði í flokki vanra þuklara, en Björn vann einnig mótið árið 2003. Melafólk gerði sér annars lítið fyrir og sópaði til sín verðlaunum – Árný Björk Björnsdóttir vann í flokki óvanra og Guðmundur Björnsson varð í þriðja sæti, en þau kepptu meðal annars við Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra í óvana flokknum. Hér fyrir neðan gefur að líta nokkrar myndir frá mótinu.

Úrslitin í keppninni voru sem hér segir:

Í flokki óvanra hrútaþuklara:
1) Árný Björk Björnsdóttir, Melum í Árneshreppi
2) Ómar Ólafsson
3) Guðmundur R. Björnsson, frá Melum í Árneshreppi

Í flokki vanra hrútaþuklara:
1) Björn Torfason, Melum í Árneshreppi
2) Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Tungusveit
3) Hörður Guðmundsson, Böðmóðsstöðum í Laugardal

Það voru 27 sem kepptu í óvana flokknum en 22 tóku þátt í flokki hinna vönu. Verðlaun voru afar vegleg, en m.a. fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingarstöð Vesturlands. Margir aðrir vinningar voru einnig fyrir keppendur eins og vegleg bókagjöf frá Sparisjóði Strandamanna og Sauðfjársetrinu, vinnugallar frá Bændasamtökum Íslands og kjötlæri, úttektargjafabréf, höfuðföt og minjagripir frá Sauðfjársetrinu. Björn Torfasaon hlaut einnig til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem er tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar.

Miklu fleiri myndir frá Meistarmóti í hrútadómum er að finna á vef Sauðfjárseturs á Ströndum.

1

Sverrir "Bassi" Guðbrandsson heldur í hrútinn Hrein (ekki þó þann sem sést stundum í sjónvarpinu).

bottom

Vönu þuklararnir fóru fyrst inn í hringinn – hinir óvönu fengu gullið tækifæri til að fylgjast með.

Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum veltir fyrir sér hvaða hrútur sé bestur. Hann komst að réttri niðurstöðu og lenti í öðru sæti.

saudfjarsetur/550-hrut08-07.jpg

Guðrún Þórðardóttir og Kristín Herdís Magnúsdóttir tóku lífinu með ró og fylgdust með úr fjarlægð.

saudfjarsetur/550-hrut08-09.jpg

Jón Vilhjálmsson, Svanhildur Jónsdóttir og Deutz-vélin Rannveig sáu um ferðir í kindavagni
fyrir ungu kynslóðina.

saudfjarsetur/550-hrut08-11.jpg

Landbúnaðarráðherrann slakar á í einum besta smalabíl Strandamanna – Rússajeppa í eigu Sverris bassa Guðbrandssonar – eftir strembið hrútaþukl. Einar náði ekki á pall að þessu sinni, en reynir sjálfsagt aftur að ári. Eftir prufuakstur lét Einar þess getið að bíllinn fjaðraði sérstaklega vel og taldi víst að fjaðrabúnaðurinn væri ekki rússneskur.

saudfjarsetur/550-hrut08-20.jpg

Hreinn gerir enn eina tilraunina til að fella Sverri Bassa af stalli sínum. Hörður Guðmundsson gerir sig líklegan til að róa hrútinn, en Guðbrandur Björnsson virðist ruglast í öllum látunum og þuklar Sverri í staðinn fyrir hrútinn.

saudfjarsetur/550-hrut08-25.jpg

Sigurvegarar í óvana flokknum. Í miðið er Árný Björk Björnsdóttir sem var í fyrsta sæti, lengst til vinstri er Ómar Ólafsson sem var í öðru sæti og lengst til hægri er Guðmundur Björnsson sem var í þriðja sæti. Árný og Guðmundur eru börn Björns Torfasonar á Melum sem sigraði í vana flokknum.

Sigurvegarar í vana flokknum. Björn Torfason á Melum í Árneshreppi er í miðið, en hann heldur á sigurgripnum "Horft til himins" sem tileinkaður er minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar. Lengst til hægri er Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum í Tungusveit, en hann hreppti annað sætið. Í þriðja sæti var síðan Hörður Guðmundsson frá Böðmóðsstöðum í Laugardal – hann er lengst til vinstri.


Ljósm. Jón Jónsson og Ásdís Jónsdóttir