04/01/2025

Björgun göngufólks gekk vel

Á sunnudagskvöld var björgunarsveitarfólk frá Norðurfirði, Drangsnesi og Hólmavík kallað út, eftir að neyðarkall barst frá hópi göngufólks. Í hópnum voru 18 manns sem lentu í hrakningum í Meyjardal, sunnan við Bjarnarfjörð nyrðri á Ströndum. Göngufólkið treysti sér ekki til að vaða ána í dalnum eftir miklar rigningar um daginn, nema tveir í hópnum sem kölluðu síðan eftir hjálp. Bátur frá Norðurfirði ferjaði fólkið að Dröngum þar sem hópurinn fékk húsaskjól, með aðstoð frá björgunarbát frá Drangsnesi. Fólkinu var kalt, en tókst að kveikja eld til að hlýja sér við meðan það beið eftir björgun.