09/01/2025

Bjarnfirðingur smíðar fallbyssuhreiður

Ólafur Ingimundarson (Lói) leikmyndasmiður og húsasmíðameistari frá Svanshóli í Bjarnarfirði stendur í stórræðum við leikmyndagerð vegna kvikmyndar Clint Eastwood, Fánar feðranna, sem tekin verður í Krísuvík á Reykjanesi. Að sögn Lóa hefur leikmyndagerðin gengið nokkuð vel og að engin stórvægileg vandræði hafa komið upp. Undanfarið hefur hann m.a. verið að gera japönsk fallbyssuhreiður hér og þar um svæðið sem hann segir að verði síðan sprengd í loft upp. "Það er öllu friðvænlegra yfir hreiðrunum heima í Bjarnarfirði," segir Lói. Clint Eastwood kom til landsins í gær og því geta tökur á myndinni farið að hefjast.


 "Það eru þrjú atriði sem við erum varaðir við að gera í návist Eastwood," segir Lói, "ekki að æsa sig, ekki reykja og ekki hlaupa. Því er líklegt að okkur geti komið ágætlega saman, þar sem ég hef verið slæmur í annarri löppinni undanfarið". Ólafur gerir ráð fyrir því að vera viðloðandi kvikmyndatökurnar og lagfæra það sem til þarf, meðan kanarnir sprengja og skjóta allt í tætlur.