23/12/2024

Barnamót HSS og Sparisjóðs Strandamanna

Barnamót HSS og Sparisjóðs Strandamanna var haldið miðvikudaginn 12. júlí. Það voru rúmlega sjötíu skemmtilegir og hressir krakkar sem reyndu fyrir sér í frjálsum íþróttum á mótinu. Þrátt fyrir leiðinda spá var veður gott, hægur andvari og þurrt. Í lok móts þá fór sólin svo að skína á Sævangi og það lygndi alveg. Gárungar höfðu það til tals að kannski ættu öll íþróttamót í Strandasýslu að vera miðnæturmót.

Allur árangur keppenda var með ágætum og hægt er að nálgast öll úrslit mótsins á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands – www.fri.is – og fara þar inn á tengilinn mótaforrit. Þar er einnig hægt að nálgast öll úrslit Héraðsmóts HSS í frjálsum. Til gamans má geta að þegar skoðaður er fjöldi keppenda og skráninga í greinar þá eru frjálsíþróttamót á vegum HSS ein þau stærstu og fjölmennustu á landinu og má ætla að rúmlega tíundi hver Strandamaður hafi tekið þátt í Héraðsmóti HSS (fjöldi keppenda 91) og er leitun að álíka þátttöku.

Líkt og í fyrra var Sparisjóður Strandamanna styrktaraðili Barnamóts HSS 2006 og þakkar Héraðssamband Strandamanna Sparisjóðsfólki kærlega fyrir.

Frá Barnamótinu – ljósm. Tóti Hermanns