22/12/2024

Ásdís Jónsdóttir mesti lestrarhestur landsins

Leiknum Allir lesa er nú lokið og kom í ljós að íbúar í Strandabyggð voru kraftmestu lesendur landsins þegar sveitarfélög voru borin saman. Og ekki nóg með það, heldur er mesti lestrarhestur landsins líka Strandamaður, Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík. Hún las í rúma 304 klukkutíma á meðan á átakinu stóð og skráði lesturinn samviskusamlega niður. Fréttaritari leit við hjá Ásdísi í dag til að forvitnast um hvaða bækur henni þættu skemmtilegastar.

Hverjar eru nú uppáhaldsbækurnar þínar?
Fyrsta uppáhaldsbókin mín var Dísa ljósálfur. Svo var það Lína langsokkur og svo allar bækurnar eftir Enid Blyton, þær fannst mér stórskemmtilegar. Eftirminnilegar bækur sem ég las þegar ég varð eldri eru til dæmis Hálfa öld á höfum úti eftir skipstjórann G.J. Whitfield. Líka langar mig að nefna Harðfengi og hetjulund sem er um ótrúlega hrakningaför Ernest Shackletons til Suðurskautsins og Hersveit hinna fordæmu eftir Sven Hassel. Porta er minn maður. Svo mæli ég með því að allir lesi Ísfólkið reglulega.

Lestu alltaf svona mikið eða lagðir þú þig sérstaklega fram út af keppninni?
Jájá, blessaður vertu, ég þambaði kaffi öll kvöld og vakti svo og las lengst fram á nótt út af þessari keppni. Las og las eins og Goggur glænefur á sínum tíma. Annars hef ég alltaf lesið frekar mikið, fæ óteljandi skemmtilegar bækur á bókasafninu á Hólmavík og kaupi líka stundum bækur. Það hefur alltaf verið mikið til af bókum á mínu heimili.

Hvernig bækur lestu nú helst?
Alls konar bækur, allt sem ég næ í. Mikið af glæpasögum, en líka fróðleik og ævisögur og ferðabækur og helling af barnabókum. Les líka Doddabækurnar í hverjum mánuði, það eru svona smákiljur sem koma út fjórar í pakka mánaðarlega, ástar-, örlaga-, sjúkrahús- og glæpasögur, við köllum þær Doddabækur í gríni. Þykja kannski ekki sérlega merkilegar, en það er fín afþreying að lesa þær fyrir svefninn.

Hvaða bók var nú skemmtilegust af þeim sem þú last í keppninni?
Fyndnasta bókin sem ég las í þessari lotu var barnabókin Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason, hann skrifar skemmtilegar bækur. Svo las ég gömlu góðu norsku bækurnar Glitra daggir grær fold og Allt heimsins yndi eftir Margit Söderholm og margar fleiri. Af nýjum bókum þá fannst mér Tvísaga mjög áhugaverð.

Ertu búin að lesa eitthvað eftir að keppninni lauk?
Jájá, núna er ég að lesa Söguna af Pí og svo er ég komin vel af stað með bókina um Strandamanninn Jón lærða og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson sem kom í heimsókn á Hólmavík núna fyrir skemmstu og var með upplestur og kynningu á bókinni.

Við þökkum Ásdísi kærlega fyrir spjallið og óskum lestrarhestunum í Strandabyggð til hamingju með árangurinn í lestrarátakinu.