22/12/2024

Árshátíð Félags Árneshreppsbúa

Í ÁrneshreppiÁrshátíð Félags Árneshreppsbúa verður haldin laugardaginn 5. mars næstkomandi í Bræðraminni, Kiwanishúsinu, Engjateig 11, Reykjavík. Húsið verður opnað klukkan 19:00, borðhald hefst hálftíma síðar. Í fréttatilkynningu frá félaginu kemur fram að forsala aðgöngumiða og borðapantanir verða í Bræðraminni laugardaginn 26. febrúar kl. 14:00-16:00. Gestir utan af landi geta pantað miða hjá Snorra Torfasyni, sími 660-3531, og hjá Gíslínu Gunnsteinsdóttur í síma 567-2678.

Verð aðgöngumiða er kr. 5.000 fyrir matargesti en að borðhaldi loknu þarf hver sá sem hug hefur á að blanda geði glaðbeitta Strandamenn að reiða fram 1.500 krónur.

Matseðill kvöldsins hefur þegar verið ákveðinn og er girnilegur að vanda

  • Forréttur: Parma skinka á salatbeði og melónu framreitt með hvítlauksbrauði og graslauksósu.
  • Aðalréttur: Heilsteikt logandi lambalæri (niðursneitt í sal) borið fram með kartöflum, grænmeti og sósum að eigin vali.
  • Eftirréttur: Kaffi og konfekt.

Heilsað með vinstri nefnist skemmtidagskrá árshátíðarinnar en hana flytur Laddi ásamt Hirti Howser, undirleikara. Skemmtidagskráin hefst um leið og gestir koma í húsið og stendur þar til borðhaldi lýkur. Laddi kemur fram í sínum þekktustu karekterum. Munu hinar persónur Ladda birtast hér og þar í salnum, gestum algjörlega að óvörum og blanda geði við þá og sprella á meðal gesta.

Að borðhaldi loknu tekur hljómsveitin Pónik við ásamt Ara Jónssyni söngvara og Strandamanni og leikur og syngur til klukkan 3:00 um nóttina.