22/12/2024

Ályktun um snjómokstur í Árneshrepp

Á fundi starfshóps um endurskoðun samgönguáætlunar Fjórðungssambands Vestfirðinga þann 10. mars var samþykkt ályktun þar sem bent er á að óeðlilegt sé að leiðin norður í Árneshrepp sé ekki mokuð reglulega. Sama gildir um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar fyrir vestan og fer starfshópurinn fram á að nú þegar verði hafist handa um mokstur þessara leiða, svo framarlega að öryggi sé tryggt. Eins og staðan sé nú séu aðgerðir stjórnvalda í mótsögn við yfirlýsta stefnu þeirra um samgöngur á svæðinu. Ályktunin er svohljóðandi:

"Starfshópur um endurskoðun samgönguáætlunar Fjórðungssambands Vestfirðinga óskar eftir því að nú þegar verði hafist handa við snjómokstur um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar og norður í Árneshrepp, að því gefnu að öryggi snjómokstursmanna verði tryggt.

Með hækkandi sól, verður áberandi hversu óeðlilegt það er að vegfarendur sem leið eiga milli suður- og norðursvæðis Vestfjarða þurfi í dag að aka  um 1200 kílómetra, fram og til baka, til að geta sótt og sinnt þjónustu milli þessara svæða. Svipað á við  um Árneshrepp, en íbúar hreppsins geta ekki nýtt sér landsamgöngur stóran hluta ársins.
 
Starfshópurinn vill benda á að Vestfirðir eru  á margvíslegan hátt ein stjórnsýslueining af stjórnvalda hálfu og hefur sameiginlegum málaflokkum fjórðungsins verið að fjölga. Einnig má nefna að opinberar þjónustu- og rannsóknarstofnanir þurfa að senda starfsmenn á milli svæða reglulega árið um kring auk þess sem fyrirtæki eru að reyna að bjóða þjónustu á báðum svæðum. Það er því ekki óeðlilegt að óskað sé eftir að reglubundinn snjómokstur sé tryggður eins og kostur er, sem og nauðsynlegt fjármagn. Að öðrum kosti eru stjórnvöld komin í mótsögn við eigin stefnu og framtíðarsýn fyrir svæðið."