22/12/2024

Alþingi er undirorpið miklum breytingum

Aðsend grein: Einar K. Guðfinnsson, þingmaður
Nú er runnin upp sú tíð þegar línur taka að skýrast um framboðslista vegna komandi alþingiskosninga. Fyrirkomulag við val á listana er margbreytilegt. Stjórnmálaflokkarnir hafa hver sinn háttinn á og aðferðin sem er nýtt er breytileg á milli flokka og kjördæma. Kjarni málsins er að þetta er í valdi flokkanna og jafnan þannig að kjördæmin og stofnanir flokkanna í kjördæmunum ráða þeim málum.

Það hefur athygli vakið að all margir alþingismenn hafa þegar lýst því yfir að þeir hyggist ekki taka sæti á framboðslistum við næstu kosningar. Meðal annars má nefna að forystumenn Samfylkingarinnar í helmingi kjördæma gefa ekki kost á sér að nýju. Ljóst er líka að þar á bæ verða frekari breytingar í forystusveit með innkomu formanns flokksins í forystusæti í Reykjavík. Þá hefur forseti Alþingis lýst því yfir að hún hyggist ekki sækja eftir endurkjöri og Halldór Blöndal, reyndasti þingmaðurinn, fyrrum ráðherra og fyrrverandi forseti Alþingis hefur líka líst því yfir að hann gefi ekki kost á sér í næstu þingkosningum.

Óvenjumiklar breytingar núna?

En er þetta óvanalegt? Verða breytingar nú meiri en að jafnaði?

Þessum spurningum er ei auðvelt að svara, eins og segir í kvæðinu. Margt á væntanlega enn eftir að breytast áður en kosningar ganga í garð, svo ekki sé talað um áður en úrslit þeirra verða kunn. Uppstillingar og prófkjör munu breyta myndinni og svo eru mál ekki orðin skýr alls staðar um framboð þingmanna. Ætla má því að þegar af hinni síðustu ástæðu eigi breytingar eftir að verða enn meiri en þegar liggja fyrir.

Sannleikurinn er hins vegar sá að við hverjar kosningar verða miklar breytingar á skipan þingsins. Gagnstætt því sem stundum er haldið fram í sleggjudómunum eru breytingar miklar á þingmannahópnum. Svo miklar að full ástæða er til að spyrja hvort sé æskilegt eða hollt.

Nýkjörnir þingmenn, 40% þingheims

Sjálfur var ég kjörinn til þingsetu sem aðalmaður árið 1991. Það ár urðu gríðarlega miklar breytingar á Alþingi. Nýjir þingmenn settu svip sinn á sali Alþingis og í þingliði okkar Sjálfstæðismanna urðu breytingarnar einstaklega miklar. Af gögnum Alþingis má sjá að nýkosnir þingmenn þetta ár voru 40% þingheims. Þetta er mesta endurnýjunun um árabil.

Þegar maður á hinn bóginn lítur yfir hópinn sem situr á Alþingi má enn sjá hinar miklu breytingar. Aðeins sitja 15 þeirra þingmanna enn á Alþingi sem sátu í þingsalnum vorið 1991 og hafa verið þingmenn æ síðar. Liðlega fimmtungur þeirra sem voru þingmenn á þessu ári. Þetta er til marks um breytingarnar. Tveir þingmenn sem kosningir voru árið 1991 hurfu af þingi um tíma en eru nú þingmenn að nýju.

Nú liggur fyrir að fimm þessara þingmanna ætla ekki að gefa kost á sér. Tólf  þingmenn verða því í hæsta lagi enn við þingstörf eftir næstu kosningar úr þeim hópi sem voru þingmenn árið 1991 og vel gæti sá hópur orðið fámennari, en það vitum við þó ekki á þessari stundu.

30% hurfu af þingi

Þegar  talið var úr kjörkössunum við síðustu kosningar lá fyrir að 30% þeirra þingmanna sem setið höfðu á Alþingi við lok kjörtímabilsins hvarf af þingi af ýmsum ástæðum. Þetta er enn eitt dæmið og það nýjasta um sannarlegar breytingar sem orðið hafa á þingmannaskipan við kosningar.

Vitaskuld  þarf að vera endurnýjun á Alþingi. Fyrir því eru margvísleg rök sem ekki er þörf á að endurtaka. En tiltekna samfellu þarf að tryggja. Í þessum efnum eins og svo mörgum er meðalhófið örugglega farsælast.
Þær breytingar sem hafa orðið á skipan Alþingis hafa haft þýðingu fyrir þingið og mótað starfið. Þó hefðir og venjur séu sterkar í þingstörfunum  fer vitaskuld ekki hjá því að breytingar á skipan þingliðsins hafa áhrif á yfirbragð og vinnulag.

Kynslóðabreytingar höfðu áhrif – þvert á flokksbönd

Maður skynjar líka breytingar á afstöðu með nýjum kynslóðum; og það án tillits til skiptingar í stjórnmálaflokka. Við sem komum til þings í fyrsta skipti sem aðalmenn árið 1991 vorum ýmis af svipaðri kynslóð. Okkur fylgdi ný hugsun sem gekk þvert á flokkslínur. Afstaða okkar til ýmissa mála sem áður voru lítt rædd, eða rædd með öðrum formerkjum endurspeglaði þessar viðhorfsbreytingar. Reynsla af háskólanámi, til dæmis erlendis,  mótaði örugglega umræðuna og  skapaði kannski jarðveg til þeirrar jákvæðu menntabyltingar sem hefur orðið á síðustu 15 árum. Afstaðan til mála sem áður voru pólitískt tabú var líka annað dæmi um þessa viðhorfsbreytingu. Í því sambandi má nefna umræðuna um málefni samkynhneigðra. Það er ástæða til þess að benda á, að við sem fluttum þingmál um þá réttindabaráttu, vorum einmitt af svipaðri kynslóð, flest hver amk. Það hafði örugglega sitt að segja.

Jafnræði á að leiða til breyttra starfshátta

Aukinn hlutur kvenna, jafnræði um skyldur heimilishalds og barnauppeldis mun síðan hafa vaxandi áhrif við þinghaldið. Skipulag þess, þingtími og fleira mun endurspegla þennan breytta veruleika – löngu breytta veruleika. Þess sjást merki í viðhorfum á skömmum tíma. Sú var til dæmis tíðin,  að ekki var til siðs að láta taka tillit til sín vegna skuldbindinga við heimilisstörf eða barnauppeldi. Nú er það orðið sjálfsagðara mál, sem betur fer,  en þyrfti vitaskuld að verða sterkari þáttur.

Þannig er þingið undirorpið breytingum. Kannski það verði túlkað sem nöldur að vekja menn til umhugsunar og spurninga um þessi atriði. En það er þó samt eins pistils virði að slíkt sé gert.

Einar K. Guðfinnsson 4. þingm. NV og sjávarútvegsráðherra
www.ekg.is