23/12/2024

Aðventuhátíð Kórs Átthagafélags Strandamanna

Aðventuhátíð Átthagafélags Strandamanna verður haldin sunnudaginn 10. desember í Bústaðakirkju og hefst kl. 16. Á hátíðinni mun kórinn flytja vel þekkt og skemmtileg jólalög. Barnakór sem stofnaður var sérstaklega fyrir hátíðina mun einnig syngja nokkur lög. Einsöngvari er hin ástsæla Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú). Stjórnandi er Ágota Joó og Vilberg Viggósson leikur á píanó.

Bjarki Sveinbjörnsson flytur hugvekju á aðventuhátíðinni, en frá því hann lauk námi í Tónvísindum frá Álaborgarháskóla í Danmörku starfaði hann sem dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu – Rás 1 um árabil. Þá tók hann að sér að koma á fót Tónlistarsafni Íslands í Kópavogi, sem nú hefur verið flutt til
Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Bjarki hefur kennt íslenska tónlistarsögu um árabil á öllum skólastigum, skrifað fjölda greina um íslenska tónlist og haldið fyrirlestra bæði vestan hafs og austan. Hann vinnur nú að uppbyggingu Tónlistarsafns Íslands í Þjóðarbókhlöðu.

Í lok Aðventuhátíðarinnar er hið rómaða kaffihlaðborð sem kórfélagar sjá um. Miðaverð við innganginn er 4.500 kr. fyrir fullorðna, frítt er fyrir börn hátíðargesta, 14 ára og yngri. Kaffihlaðborð innifalið.

Miðaverð í forsölu er 3.500 kr. en forsölu lýkur föstudaginn 8. desember. Vinsamlega hafið samband við
Gíslínu (sími 699 8859), Ragnheiði (sími 616 3148) eða aðra kórfélaga til að fá miða í forsölu.