22/12/2024

Á lista yfir 10 athyglisverðustu söfn í heimi

Galdrasýning á Ströndum hefur verið valin á lista yfir þau 10 söfn í heiminum sem ísraelska ferðaskrifstofan Masa Acher telur ómaksins vert að heimsækja á næsta ári. Masa Acher sem gefur einnig út samnefnt tímarit um ferðamál í Ísrael hefur sett saman þennan lista sem mun birtast í næstu útgáfu þess. Tímaritið er gefið út mánaðarlega og er útbreiddasta tímarit um ferðamál í Ísrael. Masa Acher er hebreska og útleggst á íslensku sem öðruvísi eða óvenjulegt. Galdrasýning á Ströndum mun fá sinn sess í næsta tölublaði tímaritsins með texta og ljósmyndum. Tímaritið fjallar um m.a. sérstaka staði, fólk, menningu, trúarbrögð, náttúruundur, ferðalög, landafræði og ævintýraferðir.

Útgáfa tímaritsins hófst fyrir 20 árum og er tímaritið gefið út á hebresku. Nokkur aukning hefur verið á ferðalögum Ísraelsbúa til Íslands undanfarin ár og margir þeirra hafa heimsótt Strandir.

Galdrasýningu á Ströndum barst erindi frá tímaritinu í morgun þar sem óskað var eftir aðstoð við að myndskreyta greinina. Þeir sem vilja reyna sig við hebresku ættu að smella hér til að fara á heimasíðu tímaritsins.