30/04/2024

Sitt af hverju tagi

Indriði Aðalsteinsson - mynd af siv.isVísnaþáttur: Indriði Aðalsteinsson, Skjaldfönn
Í páskavikunni vorum við hjónin í 18 manna hópi íslendinga í baðstrandabænum Tossa del Mar á Spáni, skammt frá Barcelona. Í hópnum voru ýmsir þjóðþekktir einstaklingar, svo og hagyrðingar góðir, eins og Friðrik Þór Guðmundsson blaðamaður, Eiríkur Jónsson formaður kennarasambandsins og Sigurður Þór Salvarsson blaðamaður.

Friðrik Þór er mikill limruunnandi og smitaði aðra af þeirri íþrótt. Spreyttu menn sig meðal annars á því að hafa bæjarnafnið Tossa sem lykilorð, m.a. ég svona:

Úr skáldunum ferhendur fossa
þau fræði eru vart fyrir tossa
ef limran er með
hún lífgar þitt geð
og aflar þér álits og kossa.

Eiríkur sem er hrókur alls fagnaðar fékk þessa:

Hann Eiríkur er okkar sómi
að allra Tossfara dómi
það skín honum frá
á golfvelli og krá
hinn íslenski afrekaljómi.

Fréttar af Ómari og Íslandshreyfingunni bárust að heiman. Í þessum 18 manna hópi var enginn stuðningsmaður hans:

Ómar er einstakur maður
en alþingi er varla hans staður.
En færi hann að spá
í forseta þá
ég fylgdi honum vafalaust glaður.

Tvær ríkisstjórnir með málefnalista og ráðherraskrá voru myndaðar á Tossa. Önnur með Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherra, hin með Steingrími J. Eftir það var hætt að biðja hamingjuna að hjálpa sér, Jesús eða guð almáttugan, en Skalla-Grímur kom í staðinn. Var ekki annað að sjá og heyra en þessi breytni bæri góðan árangur.

Mikil spenna var í kringum álkosningarnar í Hafnarfirði og frétta beðið í ofvæni. Voru úrslitin að sumra mati þau merkustu í umhverfisvernd, næst á eftir því þegar Sigríður í Brattholti bjargaði Gullfossi, Þingeyingar sprengdu Miðkvíslarstíflu og Andri Snær skrifaði Draumalandið. Ég gerði þessa vísu fyrir hönd Sólar í Straumi:

Syngur bærinn sólaróð,
seglin álmenn rifa.
Veröldin svo græn og góð,
gaman er að lifa.

Þegar heim kom tók við að svara grein Jóns Kristjánssonar þar sem hann undrast mín húsakynni í framhaldi greinar minnar um Maddömu Framsókn níræða. Það svar er farið í Mogga og Fréttablaðið og þar í eftirfarandi vísur:

Menguð er orðin og myglugræn
markviss stefnir að eigin bana
hvorki elskuð né umhverfisvæn
ástæðulaust að kjósa hana.

Kjósendur hafa Framsókn flúið
foringjanna traust er búið.
Aðeins flokksins eykur tjón
með aulaskrifum þessi Jón.

Í morgun eftir að hafa skotið mórauða refalæðu duttu eftirfarandi þankar í stuðla og rím undir fyrirsögninni: Rislág hreppsnefnd.

Hreppsnefndin er eins og allir þekkja
andskoti hress og klár.
Oss grenjaskyttur er gaman að hrekkja
það gerir hún ár eftir ár.

Því þrátt fyrir vonskulegt veðraskak
virðist nú alveg klárt,
að ég fari að hnibba höfði í þak,
helvíti verður það sárt.

Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn.