23/12/2024

8. mars – Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Aðsend grein: Herdís Á. Sæmundardóttir
Upphaf alþjóðlegs baráttudags kvenna má rekja til þýsku baráttukonunnar Clöru Zetkin. Á fundi hjá Alþjóðasamtökum sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910 bar hún upp þá tillögu að einn dagur á ári skyldi helgaður réttindabaráttu kvenna. Þann fund sóttu 130 konur frá 16 löndum. Fyrstu árin var baráttan helguð kosningarétti kvenna og samstöðu verkakvenna og í fyrstu var þessi dagur haldinn einhvern sunnudag í mars, vegna þess að það var eini frídagur verkakvenna.

Það var svo Alþjóðasamband lýðræðiskvenna, sem stofnuð voru í París árið 1945, sem ákvað að 8. mars skyldi helgaður baráttu kvenna fyrir friði í heiminum. Í kjölfar kvennaársins 1975, ákváðu síðan Sameinuðu þjóðarinar að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur kvennadagur Sameinuðu þjóðanna.

Á Íslandi er talið að 8. mars hafi fyrst verið minnst árið 1948, en á 9. og 10. áratug síðustu aldar fékk þessi dagur aukið vægi sem baráttudagur kvenna fyrir jafnrétti og friði.

Framsóknarflokkurinn er jafnréttisflokkur

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna er eðlilegt að skoða hvernig jafnréttismálum er háttað hjá stjórnmálaflokkunum, sem nú eru óðum að birta sína framboðslista.

Framsóknarflokkurinn er fyrsti flokkurinn til að setja sér sérstaka jafnréttisáætlun árið 2001 og hefur allar götur síðan unnið markvisst að því að jafna hlut kvenna og karla. Þessi vinna skilar sér vel í framboðslistum flokksins fyrir komandi kosningum eins og sjá má af samantektinni hér að neðan:

Yngsti frambjóðandinn okkar verður 18 ára í mars og elsti frambjóðandinn er verður 79 ára í júní. Listana skipa nákvæmlega jafn margir karlar og konur.

Þrjár konur og þrír karlar leiða lista í kjördæmunum 6. Í fjórum efstu sætunum sitja 10 karlar og 14 konur. Þar er prósentuhlutfall ungra um 38% sem hækkar í 42% ef skoðuð eru sex efstu sætin.

Það er því algerlega morgunljóst hvaða flokkur er jafnréttissinnaðastur af stjórnmálaflokkunum og sýnir það í verki en talar ekki bara um það á tyllidögum.

Herdís Á. Sæmundardóttir – www.skagafjordur.com/herdis
Skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi