22/12/2024

400 metrar í næstu bensínstöð

Undanfarið hafa öðru hverju verið birtar myndir af sérkennilegri staðsetningu umferðarskilta í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar. Hólmvíkingar eiga eitt þjónustuskilti við þjóðveginn sem er vægast sagt á alleinkennilegum stað, á bak við ljósastaur, og hefur verið þar síðan slíkir staurar voru settir niður á Djúpvegi við vegamótin að Hólmavík fyrir nokkrum árum. Skiltið upplýsir þá sem koma norðan af Ströndum eða vestan af fjörðum að 400 metrar séu í næstu bensínstöð á Hólmavík, en síðan taka við 115 kílómetrar að Brú í Hrútafirði þangað til næst kemur bensínafgreiðsla.

Það skal tekið fram að fréttaritari hefur enga hugmynd um hver ætti helst að færa skiltið á betri stað, hvort það er á verksviði N1 sem rekur bensínskálann á Hólmavík, Vegagerðarinnar sem er þarna hinu megin við götuna eða starfsmanna sveitarfélagsins Strandabyggðar. Kannski er þetta eins og í sögunni af bræðrunum Einhverjum, Sérhverjum og Hverjumsemer sem gera allir ráð fyrir að hinir ráðist í fyrirliggjandi verkefni og allt endar með að fjórði bróðirinn Enginn gengur í málið og ekkert gerist.

bottom

ferdathjonusta/580-bensinskilti1.jpg

Stutt í bensínið – Ljósm. Jón Jónsson