08/10/2024

Vortónleikar Norðurljósa 1. maí

Næstu dagar og vikur verða viðburðaríkir hjá Kvennakórnum Norðurljósum á Hólmavík. Þriðjudaginn 1. maí, kl. 14.00 verða haldnir vortónleikar í Hólmavíkurkirkju sem lýkur með hefðbundnu kaffihlaðborði fyrir tónleikagesti. Efnisskráin er að vanda af léttara taginu, íslensk og erlend lög af ýmsum toga. Kórinn verður svo á faraldsfæti næstu vikurnar, innanlands og utan.

Laugardaginn 5. maí, kl. 20.30 syngur kórinn á Sæluviku Skagfirðinga í félagsheimilinu Árgarði ásamt Rökkurkórnum í Skagafirði og Karlakórnum Söngbræðrum úr Borgarfirði. Á heimleiðinni koma Norðurljósin við á Blönduósi og syngja í Blönduóskirkju sunnudaginn 6. maí, kl. 14.00. Í júníbyrjun heldur kórinn svo til Skotlands og syngur ásamt skoska kvennakórnum Harmony 21 á tvennum tónleikum í Edinborg til styrktar The Royal Blind School. Stjórnandi kórsins er Sigríður Óladóttir. Píanóleikari er Úlrik Ólason og Gunnlaugur Bjarnason leikur með á gítar og harmonikku.