30/10/2024

Vonast eftir góðri þátttöku Strandamanna á öllum aldri

"Ég vona að sem flestir nágrannar okkar úr Strandasýslu taki þátt í hátíðinni. Það er upplagt að renna norður í Djúpavík á laugardaginn og tefla í síldarverksmiðjunni eða koma á hraðskákmótið í Kaffi Norðurfirði á sunnudaginn," segir Hrafn Jökulsson í Trékyllisvík, sem skipuleggur skákhátíð í Árneshreppi um helgina. Von er þekktum meisturum og áhugamönnum víða að, svo vonandi láta Strandamenn sig ekki vanta. Hátíðin er fyrir skákáhugafólk á öllum aldri og eru börn sérstaklega velkomin.

Hátíðin hefst á föstudagskvöldið klukkan 20 með setningarathöfn og tvískákarmóti í Djúpavík. Á laugardag klukkan 12 hefst Minningarmót Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík. Tefldar verða 10 umferðir og til mikils að vinna, því verðlaun skipta tugum.

Allar upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðunni www.skakhatid.blog.is. Hægt er að taka þátt í skákmóti einn daginn eða alla helgina, allt eftir hentugleikum hvers og eins.