26/12/2024

Vöfflukaffi og kaffihlaðborð á Sauðfjársetrinu


Sauðfjársetur á Ströndum sem er til húsa í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð opnar á föstudaginn kemur, þann 1. júní kl. 13:30, eftir að skólaslitum Grunnskólans á Hólmavík lýkur. Á opnunardaginn 1. júní verður vöffluhlaðborð á boðstólum og eru allir boðnir velkomnir í tilkynningu. Um leið er bent á að tilvalið sé að koma í Sauðfjársetrið og halda upp á skólaslit í Grunnskólanum á Hólmavík. Sunnudaginn 3. júní (sjómannadaginn) verður einnig veglegt kaffihlaðborð á Sauðfjársetrinu milli kl. 14:00-18:00. 

Fjölmargir viðburðir eru á dagskránni í sumar. Að sögn Esterar Sigfúsdóttir framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins hefur verið töluvert að gera í maí í tengslum við fundahöld og heimsóknir hópa. Sauðfjársetrið í Sævangi verður opið alla daga í sumar frá 1. júní – 31. ágúst frá kl. 10:00 – 18:00.