09/09/2024

Vistvernd í verki – kynningarfundur

Sveitarfélagið Strandabyggð hefur ákveðið að taka þátt í umhverfisverkefninu Vistvernd í verki sem er alþjóðlegt umhverfisfræðsluverkefni sem miðar að því að hvetja samfélög til að tileinka sér vistvænan lífsstíl og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Nú býðst íbúum Strandabyggðar að taka þátt í visthóp, en slíkir hópar samanstanda af 5-8 manns sem hittast á 6 fundum. Kynningarfundur fyrir alla verður um málið fimmtudaginn 7. janúar í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefst kl. 19:30.

Reynsla af námskeiðum Vistverndar í verki sýnir að með einföldum breytingum á daglegu lífi má spara mikla fjármuni og draga svo um munar úr áhrifum neyslusamfélagsins á umhverfið. Á fundunum er farið yfir mikilvæga þætti í rekstri heimilanna, s.s. meðhöndlun úrgangs, rafmagns-, hita- og vatnsnotkun, samgöngumál og innkaup. Leiðbeinendur í Vistvernd í verki halda utan um hópana og útdeila verkefnum sem felast í að mæla ofangreinda þætti og leita leiða til að spara í heimilishaldinu. Á fundunum bera þátttakendur saman bækur sínar og leita sameiginlegra úrlausna á viðfangsefninu.

Að loknu námskeiði skila þátttakendur niðurstöðum mælinga sem gera kleift að meta sparnað heimilanna og um leið árangurinn af visthópastarfinu. Brautryðjendur Vistverndar í verki hófu starfið með það að leiðarljósi að flestir vildu leggja sitt af mörkum til að vernda umhverfið. Kannanir meðal visthópa staðfesta þessa jákvæðu afstöðu því yfirgnæfandi meirihluti fólks er mjög ánægður með þátttöku sína í verkefninu og nærri 100% þátttakenda halda áfram á sömu braut eftir að námskeiði lýkur.