21/11/2024

Vinnuskólinn á Hólmavík í brennidepli

Unglingavinnan á Hólmavík fékk skemmtilega athygli um helgina, þegar sýnt var frá því í sjónvarpsþættinum Landanum þegar unglingar á Ströndum strituðu við að laga tröppurnar upp brekkuna að Hólmavíkurkirkju. Þessa dagana glíma krakkarnir við gróðursetningu trjáa í Kálfanesborgum, ofan við grunnskólann á Hólmavík. Þetta verkefni er unnið í samráði við Náttúrustofu Vestfjarða og Skógræktarfélag Strandasýslu og snýst öðrum þræði um glímuna við lúpínuna. Þau eru búin að gróðursetja um það bil 200 tré, en þetta eru stórar plöntur og grýttur jarðvegur svo að þetta er ekkert rosalega auðvelt segir Ragnheiður H. Gunnarsdóttir sem sér um vinnuskólann.