22/12/2024

Vinnum gegn fordómum í garð útlendinga

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður.
Aðeins vil ég víkja að málefnum útlendinga hér á landi. Í Morgunblaðinu birtust síðastliðinn föstudag tvær greinar eftir útlenskar konur, þar sem greinarhöfundar vekja athygli lesenda á vaxandi fordómum í garð útlendinga. Önnur konan er frá Litháen og hefur búið hér í sex ár. Hún segir að Litháar geti ekki í dag fengið íbúð á Íslandi til leigu, þeir fái ekki vinnu og það sem verra er, að þeir eru reknir úr vinnu. Ástæðan er að hennar mati einungis þjóðernið.

Hin konan er pólsk og segir að fordómar í garð útlendinga hafi farið vaxandi þau þrjú ár sem hún hefur dvalið hér, sérstaklega gagnvart Pólverjum. Hún bendir á að neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum hafi afleiðingar fyrir útlendinga hér á landi, fólk sem er saklaust af því sem fjölmiðlar eru að segja fréttir af. Í hvert sinn sem erlendur maður fremur glæp líða landar hans fyrir það, segir hin pólska kona.

Umfjöllum fjölmiðla um mál þar sem útlendingar koma við sögu verður að vera sanngjörn og málefnaleg og forðast ber að tilgreina þjóðerni þeirra sem koma við sögu nema það hafi einhverja þýðingu í málinu.

Um daginn kom tilkynning frá lögreglunni um það að maður hefði verið handtekinn grunaður um nauðgun. Tekið var sérstaklega fram að hann væri útlendingur. Ég get ekki séð að það hafi haft nokkra þýðingu fyrir lýsingu á glæpnum. Mér er ekki kunnugt um að erlendir menn séu frekar sekir um þann glæp en innlendir. Þetta var algerlega ástæðulaust af hálfu lögreglunnar og veldur aðeins saklausu fólki óþægindum að ósekju.

Líklegt er að fréttir fyrir skömmu af þjófagengi frá Litháen hafi haft veruleg áhrif á viðhorf til Litháa. Þar var þjóðernið svo augljóst sérkenni á málinu að erfitt er að gagnrýna fjölmiðla fyrir að láta þess getið. En eftir stendur upp á hvern og einn að vinna úr fréttunum. Þar á dómgreind manna að sjá til þess að upplýsingar um einstaklinga leiði ekki af sér harða dóma um hópa af sama þjóðerni eða jafnvel um heilar þjóðir.

Við getum ekki gert fjölmiðla ábyrga fyrir þessu mati og ég vil hvetja alla landsmenn til þess að hafa það hugfast að útlendingar eiga þann rétt að vera dæmdir af verkum sínum og framgöngu, rétt eins og við dæmum hvern og einn Íslending sem einstakling. Erlendu konurnar, sem skrifuðu í Morgunblaðið eru heiðarlegir borgarar í þessu landi, eins og á við um flesta aðra, og eiga ekki að þurfa að þola framkomu þar sem þær eru dæmdar af hegðun annarra, sem þær bera enga ábyrgð á.

Vaxandi fordómar gagnvart útlendingum er mikið áhyggjuefni og við því verður að spyrna fæti, stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, atvinnurekendur og vinnufélagar. Þetta er spurning um að rækta jákvæð viðhorf til þeirra sem koma til landsins til að svara þörfum okkar og þau styrkja viðhorf að hvern og einn eigi að meta að verðleikum sem einstakling.

Gleymum því ekki að þau vandamál, sem hafa helst komið upp á yfirborðið í kjölfar þess að tugir þúsunda útlendinga hafa flust til landsins á örfáum árum, lúta að Íslendingunum sjálfum. Það eru íslensk fyrirtæki sem eru staðin að því að borga útlendingum lægri laun, okra á þeim í húsaleigu og búa þeim óviðundandi aðstæður. Það eru Íslendingarnir sem standa sig ekki í því að bjóða upp á fullnægjandi Íslenskukennslu, eða svelta viðeigandi stofnanir í fjárveitingum þannig að þær standa ráðþrota frammi fyrir verkefnum sínum.

Vandamál tengd útlendingum eru fyrst og fremst vandamál sem Íslendingar hafa búið til og útlendingar, sem hingað hafa komið, eru fólk sem við höfuð kallað til starfa. Höfum það hugfast.

Kristinn H. Gunnarsson
www.kristinn.is