Vinnuhópur Fjórðungssambands Vestfirðinga skilaði á dögunum tillögum til stjórnar Fjórðungssambandsins um aðgerðir og reglur um refa- og minkaveiða. Vinnuhópurinn var skipaður í framhaldi af Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var í Súðavík í september 2006. Í hópnum sátu Barði Ingibjartsson i Súðavík, Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum við Steingrímsfjörð og Sighvatur J. Þórarinsson. Stjórn Fjórðungssambandsins hefur fjallað um tillögurnar og samþykkt þær fyrir sitt leyti, en þær eru nú til umfjöllunar hjá sveitarfélögum á Vestfjörðum.
Helstu tillögur hópsins eru eftirfarandi:
- Að sveitarfélög á Vestfjörðum taki upp samræmdar reglur um refa- og
minkaveiðar. - Að Fjórðungssamband Vestfirðinga krefjist þess að ríkið taki alfarið yfir
kostnað vegna refa- og minkaveiða og óski eftir viðræðum við ríkisvaldið vegna
þess. - Að óskað verði eftir samstarfi við Umhverfisstofnun og umhverfiráðuneyti um
leiðir til að fækka refum í kringum Hornstrandafriðlandið. Metin verði, á
vistfræðilegum forsendum, ásættanleg stofnstærð refa í friðlandinu. Á þeirri
forsendu verði hægt að ákveða þann fjölda dýra sem fella þarf árlega til að
halda stofninum í ákveðnum fjölda dýra. Þetta krefst þess að vöktun verði á
stofninum og að veiðiþolið verði metið árlega. Þær veiðar sem þarf þá að
framkvæma gætu farið fram vor og haust, eða utan ferðamannatímans. Umhverfisstofnun sæi alfarið um kostnað og framkvæmd veiðanna, en í samráði við
viðkomandi sveitarfélög. Til vara er lagt til að teknar verði upp viðræður um ríkið að það komi
sérstaklega til móts við sveitarfélög á Vestfjörðum vegna fjölda refa í
fjórðungnum.
Skýrsluna í heild sinni má nálgast undir þessum tengli.