23/12/2024

Viltu vera mem?

Viltu vera mem? Hvaða leikir finnast börnum skemmtilegir? Hvaða hlutverki gegna leikföng í leikjum þeirra heima eða í skólanum? Þetta er meðal þeirra spurninga sem reynt verður að svara í verkefninu Samtímasöfnun – leikir barna. Það er Þjóðfræðistofa í samstarfi við Byggðasafn Árnesinga, Byggðasafn Reykjaness, Lækningaminjasafn Íslands, Minjasafn Austurlands, Minjasafn Akureyrar, Minjasafn Reykjavíkur og Þjóðminjasafn Íslands, sem stendur fyrir samtímasöfnun um leiki barna í upphafi 21. aldar.

Markmiðið er að safna fróðleik um leiki barna, ásamt leikföngum og ljósmyndum. Söfnunin mun ná til nemenda í nokkrum 5. bekkjum víðsvegar um landið. Samstarf safnanna sem taka þátt gerir þeim kleift að standa að víðtækri söfnun sem veitir einstaka innsýn inn í þennan þátt í lífi barna á okkar tímum. 

Verkefnið vekur áhugaverðar aðferðafræðilegar spurningar. Hvernig eiga söfn að safna samtímanum? Hvað viljum við velja sem heimildir um okkar samtíma fyrir kynslóðir framtíðar? Í þessu verkefni verður stuðst við aðferð, kennd við samdok, sem þróuð hefur verið í Svíþjóð. Felst það í að velja einhvern þátt samfélagsins og safna heimildum, s.s. þjóðháttum, ljósmyndum og gripum, sem sameiginlega geta gefið heildstæðari mynd en ella. 

Fyrirhugað er að kynna niðurstöður verkefnisins með útgáfu og sýningu sem sett verður upp hjá öllum söfnunum.