22/11/2024

Villandi kort og upplýsingar

Aðsend grein: Jón Jónsson.
Nú er vorið í nánd og erlendir ferðamenn byrjaðir að láta sjá sig á Ströndum, á rúntinum um landið. Það er gott að ferðamannatíminn sé að lengjast, en hitt er verra að sumir ferðamennirnir eru uppfullir af áformum um ferðaleiðir sem eru ófærar á þessum árstíma. Það er svo sem ekkert mjög mikið af erlendu ferðafólki hér á Ströndum í mars og apríl, en það er hins vegar hlutfallslega allt of algengt að það ætli sér að fara einhverja ófæra vegi, eins og til dæmis yfir Steinadalsheiði, Tröllatunguheiði og Þorskafjarðarheiði.

Tvennt veldur mér áhyggjum varðandi erlenda ferðamenn að vorlagi. Annað er sá fjöldi útlendinga sem er einhvers staðar úti að aka þegar gerir vont veður og enginn veit neitt um á misjafnlega vel út búnum bílaleigubílum. Þetta hlýtur að enda með stórslysum.

Hitt er það að fullt af þessu fólki er mjög vel útbúið af upplýsingum, með bæklinga frá ferðaþjónum, útprent af vefsíðum, íslensk og erlend kort, handbækur um ferðalög á Íslandi og fleira og fleira. Mjög oft er hvergi í þessum plöggum sagt frá því að sumir vegir eru einfaldlega ófærir yfir veturinn, t.d. vegirnir um Tröllatunguheiði og Þorskafjarðarheiði. Eins hefur oft komið fyrir að það kemur alveg algjörlega flatt upp á ferðamenn sem eru að leggja af stað Vestfjarðahringinn að vetrarlagi og stoppa hjá mér, þegar ég segi þeim að sú leið sé nú ófær núna og sé stundum ófær dögum og vikum saman. Stundum kemur hingað líka fólk sem ætlar norður í Árneshrepp þegar vegurinn þangað er lokaður og eins og við vitum er hann stundum ekki mokaður fyrr en eftir dúk og disk þegar hann verður ófær. Stundum ætla menn líka að stoppa næst, borða og gista á stöðum sem eru lokaðir og enginn starfsemi á yfir veturinn, jafnvel enginn maður á staðnum. Þegar ég skoða með þeim kortin kemur í ljós að engar slíkar upplýsingar er að finna í plöggunum og upplýsingunum sem ferðamennirnir eru með.

Ég held opinberir aðilar og ferðaþjónar verði að taka höndum saman og gera skurk í að bæta upplýsingagjöf um færa og ófæra vegi yfir vetrartímann. Þeir sem gefa út ferðakort og bæklinga eða sjá um vefsíður þurfa að vera meðvitaðir um að fólk ferðast núorðið bæði vetur og sumar. Merkja þarf hvaða þjónusta er opin allt árið og hvort vegir séu opnir allt árið. Upplýsingar um færð á vegum og veðurspá þurfa einnig að vera á fleiri málum á Textavarpinu og vefsíðum Vegagerðar og Veðurstofu. Er ekki hægt að hafa upplýsingar á textavarpinu myndrænar og birta þar færð á vegum? Og nota þarf vegnúmerin enn meira í upplýsingagjöf, t.d. á Textavarpinu, útlendingar keyra eftir vegnúmerum en vita ekkert hvar á landinu Ennisháls er eða Holtavörðuheiði. Ferðaþjónar þurfa einnig að hafa nettengdar tölvur fyrir gesti á gististöðum (þar sem fullnægjandi netsamband er til staðar) til að fólk geti flett upp á síðum eins og færð á vegum og veðurspánni.

Þá þyrfti maður ekki að hafa eins miklar áhyggjur af fyrra atriðinu, að ferðafólkið sé einhvers staðar úti að aka á fáförnum vegum þegar bylurinn brestur á, með villandi og ófullnægjandi upplýsingar í hanskahólfinu.

Jón Jónsson, Kirkjubóli