04/10/2024

Vill einhver taka að sér gamla Kópnesbæinn á Hólmavík?

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur auglýst eftir áhugasömum aðilum um endurgerð og uppbyggingu á gamla Kópnesbænum á Hólmavík. Finnist slíkir aðilar ekki á næstunni er ætlunin að rífa bæinn fyrir veturinn. Húsið er líklega byggt 1916 og er friðað lögum samkvæmt eins og aðrar minjar og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri. Því þurfa allar framkvæmdir og væntanlega niðurrif líka að fara fram í samráði við Minjastofnun. Sá aðili sem fær bæinn til uppbyggingar þarf að ganga þannig frá byggingunum að ekki stafi af þeim fokhætta fyrir 1. október 2017.

Fyrirliggjandi eru teikningar af bæjarhúsunum sem gerðar voru árið 2005 eftir uppmælingu á þeim. Teikningarnar liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins. Sveitarstjórn Strandabyggðar áskilur sér rétt til að velja úr hugmyndum eða hafna öllum. Umsóknum skal skilað á skrifstofu sveitarfélagsins að Höfðagötu 3, 510 Hólmavík eða í tölvupósti á strandabyggd@strandabyggd.is fyrir 20. júlí 2017.

Kópnesbærinn er að mörgu leyti merkilegt og sérstakt hús, lítið kotbýli með útihúsum á litlu nesi við Kópnesbrautina, bárujárnshús sem virðist áður hafa verið með hlöðnum torfveggjum. Fremur sjaldgæft eru að sambærileg kotbýli frá fyrri hluta 20. aldar séu enn varðveitt innan þéttbýlisstaða. Fjaran er ósnortin á nesinu þar sem bærinn stendur, húsin spila vel saman við umhverfið og gaman væri ef þau væru gerð upp.

Gamli bærinn á Kópnesi – ljósm. Jón Jónsson