24/04/2024

Viðtal við yfirnáttúrubarnið í Sævangi

Dagrún Ósk Jónsdóttir

Náttúrubarnaskóli er nýtt verkefni sem Sauðfjársetur á Ströndum hefur staðið fyrir í sumar. Skólinn er með höfuðstöðvar í Sævangi og stendur fyrir margvíslegum námskeiðum og uppákomum fyrir náttúrubörn á öllum aldri. Verkefnið hefur farið vel af stað og góð þátttaka verið. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðinemi við Háskóla Íslands sér um þróunarvinnuna og starfsemina á þessu ári og er titluð sem yfirnáttúrubarn. Ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is tók af þessu tilefni dálítið viðtal við Dagrúnu og spurði hana út í Náttúrubarnaskólann.

Hvernig gengur Náttúrubarnaskólinn?
Hann gengur bara mjög vel, ég er búin að halda sex námskeið og standa fyrir tveimur gönguferðum og við erum búin að prufa ýmislegt sniðugt og skemmtilegt. Það er alltaf að bætast eitthvað nýtt við og hugmyndin að stækka. Nú er ég nýbúin að gera útigrill niðri í Orrustutanga þar sem við höfum grillað puslubrauð og svo var ég með gestakennara í gær sem var mjög skemmtilegt. Það er búin að vera mjög góð þátttaka og ég er bara mjög ánægð með þetta.

Hvernig kom þetta til?
Þessi hugmynd er búin að vera lengi á teikniborðinu hjá Sauðfjársetrinu, í mörg ár. Svo var ég áhugasöm um að kýla á þetta í sumar og það var stemmning fyrir því hjá stjórn Sauðfjársetursins, svo við gerðum það bara.

Eru námskeiðin fyrir allan aldur?
Já þetta er fyrir fólk á öllum aldri, börn og fullorðna, en ef börn eru yngri en 6 ára er betra að það sé einhver fullorðinn með þeim. Það hafa allir gott og gaman af því að upplifa náttúruna.

Hvað gerið þið skemmtilegt?
Alls konar, við förum út í gönguferðir, svo grillum við úti, sendum flöskuskeyti, gerum fuglahræður, föndrum eitthvað skemmtilegt og skoðum fugla og plöntur og fleira tengt náttúrunni. Blanda af fróðleik og skemmtun.

insta13

Hvernig finnst þér að vera yfirnáttúrubarn?
Mér finnst það mjög skemmtilegt. Allir sem hafa komið á viðburði og námskeið eru mjög skemmtilegir og mér finnst gaman að vera úti og brasa eitthvað. Ég er samt algjör kuldaskræfa þannig fyrst í sumar þegar kalt var í veðri, hugsaði ég stundum bara: Nei, hvað er ég búin að koma mér út í? Veðrið er nú ekkert búið að vera eins og best hefði verið á kosið. En svo er bara svo gaman, þetta snýst eiginlega aðallega um að koma sér út, svo er þetta ekkert mál.

Veist þú allt um náttúruna?
Nei, alls ekki. Ég held það sé ansi erfitt að vita alla skapaða hluti, því það er svo margt sem tengist náttúrunni. Ég veit ýmislegt samt og hef lært óhemju í sumar. Bæði er ég að lesa mér til, svo er ég að tala við fólk á svæðinu sem veit ýmislegt og svo segja krakkarnir á námskeiðunum mér oft sjálfir frá einhverju skemmtilegu.

Og hvað vita krakkarnir?
Já, oft miklu meira en maður býst við. Það er ansi algengt að þau þekki blóm og fugla, hafi farið í gönguferðir og verið að fræðast hjá ömmu og afa, hafi til dæmis farið með þeim í fjárhús eða að tína blóðberg eða eitthvað svoleiðis. Sem er mjög skemmtilegt, þá kenna þau mér eitthvað líka.

ganga

Hvað finnst krökkunum skemmtilegast?
Hahaha, þeim finnst mjög gaman þegar stóra tjaldið við Sævang sem við notum á námskeiðunum blaktir mikið í vindinum. Þá segja þau að tjaldið sé að hrynja og verða mjög spennt og hlaupa inn og út á fullu, í gleði sinni yfir þessu. Þeim finnst líka ótrúlega skemmtilegt að gera eitthvað sem þau eru ekki vön. Til dæmis var mjög gæf æðarkolla í Kirkjuskerinu sem er þar á hverju ári og hægt er að klappa, það var ótrúlega skemmtilegt. Svo voru æðarungar í fóstri í Sævangi á einu námskeiðinu og í gær sáum við fjölmarga teistuunga, það vakti líka mikla lukku. Svo finnst þeim gaman að safna dóti í fjörunni og vilja helst taka það allt með sér heim. Líka fjör að mála og fara í leiki.

klappakollu

Hvernig þarf maður að undirbúa sig til að fara í Náttúrubarnaskólann?
Maður þarf að vera í hlýjum fötum númer 1, 2 og 3. Svo er ekkert verra að það séu föt sem mega skemmast, þó allir fari í málningarboli þegar við erum að fara að gera eitthvað svoleiðis. Svo bara að vera hress og kát og til í allt.

Hvað er framundan?
Á morgun byrjar helgarnámskeið sem er mjög spennandi og svo verður Náttúrubarnaskólinn næstu fimmtudaga með ákveðið þema í gangi. Til dæmis vorum við með fuglaþema síðasta fimmtudag og svo er galdraþema næsta fimmtudag sem verður mjög spúkí. Svo verður seinna fjöru- og sjávarþema og jurtaþema. Stefnan er að gera eitthvað nýtt og spennandi á öllum námskeiðum og að þau verði töluvert ólík, þannig að þeir sem fara á mörg námskeið fái alltaf eitthvað nýtt í bland. Svo er stefnan að hafa allavega eina gönguferð í viðbót í júlí og reyna að hafa kvöldvöku líka einhvern tíma fljótlega.

Verður Náttúrubarnaskóli í gangi í Sævangi á næsta ári?
Já pottþétt. Þetta hefur gengið vel, en sumarið einkennist af tilraunum með alls konar viðburði og dagskrá. Í framtíðinni er hugmyndin að náttúrubarnaskólinn verði með alls konar uppákomur fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn á öllum aldri, auk þess að höfða til íbúa á Ströndum og nærsveitum.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is þakkar Dagrúnu Ósk kærlega fyrir spjallið og óskar Náttúrubarnaskólanum alls hins besta.

floskuskeyti  grill   sol

Ljósm. Dagrún Ósk Jónsdóttir / Náttúrubarnaskólinn