13/12/2024

Við þurfum pólitískan styrk til þess að ná markmiðum okkar!

300-sturla-bodvarsson2007Aðsend grein: Sturla Böðvarsson samgönguráðherra
Umræður um samgöngumál hafa verið stöðugar að undanförnu og hafa kröfur um hraðari uppbyggingu vegakerfisins verið áberandi. Full ástæða er til þess að fagna því hversu skilningur hefur farið vaxandi á þeim sjónarmiðum mínum um að bætt vegakerfi auki velmegun í landinu. Þau sjónarmið hef ég sett fram bæði í ræðu og riti. Metnaðarfull samgönguáætlun sem var afgreidd á Alþingi í vor sýnir vel afstöðu mína til þess að uppbyggging samgöngukerfisins þarfnast stærri hlutdeildar í þjóðartekjunum. Litlar líkur eru taldar á að sjóflutningar við ströndina  verði að marki teknir upp aftur í því magni sem áður var. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að leggja enn frekari áherslu á uppbyggingu vegakerfisins.

Með löggjöf um gerð samgönguáætlunar var mörkuð skýr stefna í samgöngumálum og sett voru fram megin markmið sem ná ætti með samþættingu við uppbyggingu vega, hafna og  flugvallaþjónustu. Grunnet samgöngukerfisins var ákvarðað og skilgreint og  leitað hagkvæmustu leiða við uppbyggingu hafna, flugvalla og vegakerfisins. Allir sanngjarnir menn viðurkenna að mjög hefur miðað í rétta átt hin síðari ár og framundan eru stórir áfangar. En betur þarf að gera. Íbúar Norðvesturkjördæmis vita að við þurfum öflugan hóp þingmanna til þess að ná markmiðum okkar við uppbyggingu í samgöngukerfisins. Betri samgöngur eru forsenda öflugs atvinnulífs og betri búsetu skilyrða.

Til þess að við getum náð markmiðum okkar þurfum við sjálfstæðismenn pólitískan styrk. Með því að stór efla Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi tryggja kjósendur tvennt: Sterka stöðu okkar ráðherranna tveggja sem fara með sjávarútvegsmál og semgöngumál og tryggið jafnframt  þeim öfluga þingmanni Einari Oddi Kristjánssyni þingsæti og þar með þau áhrif á Alþingi sem íbúar í kjördæminu þurfa á að halda. Ég skora á kjósendur í Norðvesturkjördæmi að tryggja öruggt kjör Einars Odds um leið og ég lýsi mig tilbúinn til þess að vinna af alefli fyrir hagsmunum kjördæmisins alls. Að lokum við ég þakka íbúum í Norðvesturkjördæmi fyrir mjög ánægjulegt samstarf á kjörtímabilinu.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra
www.sturla.is