22/11/2024

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar

Vetrarþjónustan 2005Nú fyrir skemmstu tilkynnti samgönguráðherra um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja meira fé í hálkuvarnir og vetrarþjónustu á þjóðvegum landsins, auk þess sem vinnureglur Vegagerðarinnar yrðu teknar til skoðunar. Hvað hálkuvarnir snertir var 5. þjónustuflokkurinn felldur niður og vegir í þeim flokki færðust upp í 4. flokk. Hér á Ströndum á þetta við um vegina frá Norðurfirði að Gjögri og frá Drangsnesi í Bjarnarfjörð. Flestir vegir sem voru í 4. flokki færðust einnig upp í 3. flokk, til dæmis vegurinn frá Brú og norður Strandir og áfram um Steingrímsfjarðarheiði vestur í Djúp.

Þetta færsla á milli flokka 4 og 3 á þó ekki við um um vegi sem voru í 4. flokki og eru mokaðir 4-5 sinnum í viku ef vetrardagsumferð (VDU) er minni en 100 bílar á sólarhring. Bitnar þessi undantekning til dæmis á veginum frá Búðardal og um A.-Barðastrandarsýslu að Flókalundi í Vatnsfirði.

Flokkun vega í þjónustuflokka

Í þessu samhengi er fróðlegt að skoða og rifja upp snjómokstursreglur Vegagerðarinnar á Ströndum, en býsna ítarlega er kveðið á um allan mokstur í nokkuð nákvæmum vinnureglum sem aðgengilegar eru öllum sem skoða vilja. Mokað er 6 daga í viku frá Brú til Hólmavíkur og þaðan áfram á Drangsnes, alla daga nema laugardaga, eins og nánar er kveðið á um hér. Einnig er mokað sömu 6 daga í viku frá Hólmavík um Steingrímsfjarðarheiði og vestur á Ísafjörð. Um vinnureglur á þeirri leið má fræðast hér.

Í Bjarnarfjörð er mokað tvisvar í viku frá Drangsnesi, mánudaga og miðvikudaga, eins og fræðast má um hér. Um Bjarnarfjarðarháls og veginn norður í Árneshrepp gildir hins vegar sú regla að miðað er við opnun tvisvar í viku vor og haust, en opnun er háð snjóalögum og ekki opnað ef aðstæður eru erfiðar og snjór mikill. Um þær reglur má fræðast hér, en eins og kunnugt hefur vegurinn norður í Árneshrepp yfirleitt verið lokaður frá því um áramót og fram í apríl síðustu árin og lengur ef snjóa gerir fyrir áramót.

Innansveitar í Árneshreppi, á leiðinni frá Norðurfirði að Gjögri, er mokað tvisvar sinnum í viku yfir veturinn og miðast þeir opnunardagar við flug Landsflugs á Gjögurflugvöll á mánudögum og fimmtudögum. Hér eru nánari upplýsingar um þessa leið.

Reglur um snjómokstur

Aðrir vegir eru ekki opnaðir nema Vegagerðin sé sérstaklega um það beðin samkvæmt þessum upplýsingum og greiðir Vegagerðin þá helming kostnaðar þegar beðið hefur verið um moksturinn. Sveitarfélögin óska þá yfirleitt eftir slíkum mokstri og greiðir mótframlagið. Þessi regla gildir aðeins fyrir vegi að býlum með vetursetu, annars greiðir sá sem óskar eftir viðbótarmokstri allan kostnaðinn. 

Það vekur sérstaka athygli að samkvæmt þessum reglum er ekki reiknað með að vegurinn á Langadalsströnd í Hólmavíkurhreppi sé opnaður, nema til komi beiðni sveitarfélagsins og kostnaðarþátttaka þess. Þar er þó heilsársbúseta á nokkrum bæjum og börn þaðan sækja skóla á Hólmavík yfir vetrartímann. Íbúar þar sækja einnig þjónustu og jafnvel vinnu á Hólmavík. Erfitt er að koma auga á rök fyrir því að þjónusta þar sé lakari en t.d. í Bjarnarfirði.

Bæirnir Munaðarnes og Krossnes í Árneshreppi eru einnig utan vegaþjónustu yfir háveturinn og sama á við um Djúpavík, en aðstæður og vegakerfið sitt hvoru megin gera mokstur þar óviðráðanlegan ef snjór er mikill.

Sjá nánar um vetrarþjónustuna á vef Vegagerðarinnar. Myndir sem fylgja þessari grein eru fengnar á vef Vegagerðarinnar.