09/09/2024

Vesturferðir á yfirreið

Starfsmenn Vesturferða á Ísafirði hafa verið á yfirreið um fjórðunginn til að kynna sér ferðaþjónustu og heimsækja ferðaþjóna á Ströndum í dag. Vesturferðir er eina starfandi ferðaskrifstofan á Vestfjörðum og sér einnig um rekstur Upplýsingamiðstöðvar á Ísafirði sem er svokölluð landshlutamiðstöð og fær ríkisstyrk sem slík. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is greip þá félaga Guðmund og Gylfa hjá Vesturferðum glóðvolga á Sauðfjársetrinu í Sævangi þar sem þeir voru í óðaönn að kynna sér starfsemina og smellti af þeim mynd. Vefur Vesturferða er á slóðinni www.vesturferdir.is fyrir þá sem vilja fræðast frekar um fyrirtækið.