Næstu daga fer fram hin landsþekkta kraftakeppni Vestfjarðavíkingurinn. Keppnin hefst í sundlauginni á Hólmavík fimmtudaginn 10. júlí kl. 14:00 og eru menn eindregið hvattir til að mæta á svæðið og berja sterkustu menn landsins augum á meðan þeir reyna kraftana í sundlaugargreininni. Síðan berst leikurinn vestur í Djúp, að Heydal í Mjóafirði kl. 18:00 sama dag, þar sem keppt verður í legsteinagöngu. Síðan tekur hver greinin við af annarri, eins og sjá má í dagskránni hér að neðan. Vestfjarðavíkingurinn heimsótti Strandir síðast 2004 og var þá keppt í réttstöðulyftu á Sauðfjársetrinu í Sævangi eins og sjá má undir þessum tengli og annarri grein við Grunnskólann á Hólmavík.
Keppt verður á eftirtöldum stöðum:
Fimmtudagur 10. júlí
– Hólmavík kl. 14:00 – Sundlaugargrein.
– Heydalur kl. 18:00 – Legsteins ganga.
Föstudagur 11. júlí
– Ísafjörður kl. 11:00 – Öxul lyfta.
– Flateyri kl 15:00 – Steinatök.
– Þingeyri kl. 17:00 – Kútakast.
Laugardagur 12 júlí
– Suðureyri kl. 11:00 – Réttstöðulyfta.
– Ísafjörður kl. 15:00 – Herkulesarhald (sterkasti áhorfandinn getur unnið GSM-síma).
– Ísafjörður kl. 16:00 – Hleðslugrein.