04/05/2024

Strandagaldur gefur út aðra bókina í ár

Það stefnir í dágott útgáfuár hjá Strandagaldri í ár en nýverið kom út bókin
Tvær galdraskræður sem Magnús Rafnsson tók saman. Nú er komin út bók sem Már
Jónsson sagnfræðingur tók saman og heitir Galdrar og siðferði í Strandasýslu á
síðari hluta 17. aldar
. Bókin er í kiljuformi og telur 202 blaðsíður og fæst að
sjálfsögðu á Galdrasýningu á Ströndum og sölubúð hennar á vefnum. Bókin er
einnig fáanleg í Minja- og handverkshúsinu Kört í Trékyllisvík. Í bókinni er
einnig að finna enskan úrdrátt sem skrifaður er af Magnúsi Rafnssyni.

Á baksíðu bókarinnar segir að Strandamenn stæri sig á góðum stundum af því að
kunna meira fyrir sér í göldrum en aðrir Íslendingar, ekki síst á þeim forsendum
að í sýslunni urðu sum mögnuðustu galdramál 17. aldrar. Í bókinni birtast
varðveittir dómar í þeim málum í fyrsta sinn á prenti og sýna hugarheim og
lífskjör alþýðumanna í kuldalegu ljósi ásakana um hrekki og ofsóknir, sem
sakborningar tóku sjálfir mark á og notuðu sér til framdráttar í harðri
lífsbaráttu.