22/12/2024

Verkefni lögreglunnar í liðinni viku

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um verkefni liðinnar viku, kemur fram að á miðvikudaginn var rann vöruflutningabifreið með tengivagn út af veginum um Ennisháls, milli Kollafjarðar og Bitrufjarðar. Bifreiðin var dregin aftur upp á veg af annarri flutningabifreið og veghefli frá Vegagerðinni.    Flutningabifreiðin, sem var fulllestuð, skemmdist ekki og gat ökumaður hennar haldið áfram för sinni.

Aðstoða þurfti ökumann vörubifreiðar á þriðjudaginn er bifreið hans festist í snjó á Klettshálsi í Reykhólahreppi. Bóndi af bæ í nágrenninu var fenginn til að ná í ökumann vörubifreiðarinnar og dvaldi ökumaðurinn hjá honum þar til morguninn eftir, er Vegagerðin mokaði veginn.

Á mánudeginum fór bifreið út af veginum í Mjóafirði og valt. Ökumann og farþega sakaði ekki en bifreiðin var mikið skemmd og var hún flutt með kranabíl af vettvangi. Tvö önnur minniháttar umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni, annað innanbæjar á Ísafirði en hitt á Flateyri.

Þá voru 20 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum í vikunni. Flestir voru stöðvaðir á Djúpvegi í Ísafjarðardjúpi á mánudaginn, þegar fólk var á heimleið eftir páskahelgina. Af þessum 20 voru 6 stöðvaðir innanbæjar á Ísafirði eftir hraðakstur. Lögreglumenn frá Patreksfirði stöðvuðu ökumann á 119 km hraða á Barðastrandavegi þar sem hámarkshraði er 90 km/klst og reyndist sá hafa ekið hraðast þeirra sem stöðvaðir voru þessa vikuna.