22/11/2024

Verður Hilmir ST-1 rifinn?

Nú er áratugur síðan Hilmir ST-1 var tekinn á land og komið fyrir við höfðann á Hólmavík sem eins konar minnismerki um útgerð og sjósókn frá Hólmavík. Fyrir verkefninu stóð áhugafélag um varðveislu Hilmis. Staðsetningin var á sínum tíma nokkuð umdeild, en skipið hefur vissulega sett svip á bæinn og vakið athygli. Nú hefur Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefnd Strandabyggðar skrifað áhugafélaginu og farið fram á upplýsingar um áætlanir þess varðandi bátinn. Eins kemur í fundargerð fram það álit nefndarinnar að honum sé ekki sýnd virðing með varðveislu í núverandi ástandi og hann sé auk þess hættulegur börnum sem kunna að gera sér hann að leiksvæði.

Að sögn Jóns Alfreðssonar sem er einn af forsvarsmönnum félagsins er líklegast að báturinn verði rifinn og fjarlægður, nema að nú komi fram aðrar hugmyndir eða sérstakur áhugi á að varðveita hann áfram. Vill Jón gjarnan að menn setji sig í samband við hann sem allra fyrst, ef um einhverjar slíkar hugmyndir er að ræða eða menn hafi áhuga á stuðningi við varðveislu bátsins.

Hilmir ST-1 hefur einu sinni verið málaður eftir að hann kom á land, en er nú verulega farinn að láta á sjá, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Aldrei hefur verið gengið að fullu frá umhverfinu í kringum Hilmi, en þar er skipulagt grænt svæði sem sveitarfélagið ætlaði á sínum tíma að sjá um.

Hilmir ST-1. Ljósm. Jón Jónsson.