22/11/2024

Verðlækkun og áskorun til sjómanna og krossara

DSunnudaginn 10. ágúst nk. kl. 14:00 verður haldin Dráttarvéladagur og töðugjöld í Sauðfjársetrinu í Sævangi við Steingrímsfjörð. Þar verður keppt í góðakstri á fornri dráttarvél með vagn í eftirdragi. Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins, segist vonast eftir góðri þátttöku í aksturskeppninni og vill skora sérstaklega á sjómenn og mótorkrossara að mæta og sýna bændunum hverjir séu bestir í dráttarvélaakstrinum. Arnar vildi ennfremur koma því á framfæri að í tilefni heyskaparloka verði aðgangur að kaffihlaðborði á sunnudag lækkaður um tæp 20% – úr kr. 1.200 fyrir fullorðna niður í kr. 1.000. Sama verðlækkun mun gilda fyrir yngri kynslóðina.

Í fyrra var það Karl Þór Björnsson frá Smáhömrum sem vann í karlaflokki, en Guðbrandur Björnsson bróðir hans og bóndi á Smáhömrum var í öðru sæti. Þeir bræður hafa jafnan náð góðum árangri í keppninni, en árið 2005 voru þeir í öðru og þriðja sæti á eftir Sævari Óla Ólafssyni úr Þykkvabæ. Svanhildur Jónsdóttir á Hólmavík hefur hins vegar alltaf unnið keppnina í kvennaflokki þó litlu hafi munað í fyrra.

Sauðfjársetrið er opið alla daga frá kl. 10:00-18:00.