Búið er að auglýsa vélsmiðjuna Vík á Hólmavík til sölu, en frá þessu er greint á fréttavefnum bb.is. Vélsmiðjan hefur starfað í um 50 ár og er því eitt af rótgrónustu fyrirtækjum á Hólmavík. Kristján Jóhannsson sem á og rekur vélsmiðjuna segist í samtali við bb.is vilja komast út úr þeim vítahring sem reksturinn sé búinn að vera að undanförnu, grundvöllurinn fyrir rekstrinum sé brostinn og ekki sé næg verkefni að hafa á Hólmavík. Ekki sé svigrúm fyrir fleiri stöðugildi við vélsmiðjuna en eitt.
Kristján segir i viðtalinu við bb.is að atvinnuástandið á Hólmavík sé ekki eins og best verði á kosið.