Sviðaveisla Sauðfjárseturs á Ströndum sem haldin var í Sævangi á laugardaginn tókst afbragðs vel. Þar gæddu fjölmargir gestir sér á sviðum, köldum og heitum, nýjum, söltuðum eða reyktum – allt eftir því hvað heillaði þá mest sem viðstaddir voru. Sviðasulta og soðnar lappir voru einnig á borðum og voru vinsælar. Í eftirmat voru rabbarbaragrautur með bláberjum og rjóma og blóðgrautur með rúsínum og sykri. Til skemmtunar var sprell og söngur, vísnaþáttur og bingó. Eftir matinn var harmonikkan þanin og dansað í Sævangi. Það var mál manna að vel hefði tekist til og vonandi verður skemmtun sem þessi haldin aftur í Sævangi.
Sviðaveisla í Sævangi – ljósm. Jón Jónsson