26/12/2024

Veitingaskálinn Brú fékk viðurkenningu

Sérstakur erindreki frá Olíufélaginu fer með reglulegu millibili um landið og tekur út þá  Esso-söluskála sem eru af stærri gerðinni og standa við þjóðveg eitt. Hann kemur við í skálunum og gerir úttekt án vitundar starfsmanna. Skoðuð eru ýmis atriði, m.a. viðmót starfsfólksins, hreinlæti og snyrtimennska og heildarímynd skálanna. Að sögn Bjarna Rafns Yngvasonar sem hefur verið rekstrarstjóri Brúarskála frá því í vor, þá er skálunum gefin einkunn í hverri úttekt og hefur Brúarskáli verið að fá betri og betri útkomu eftir því sem liðið hefur á sumarið. Í ágúst fékk skálinn svo sérstaka viðurkenningu frá Olíufélaginu fyrir góða frammistöðu.

Skálinn er nú á meðal þeirra bestu hvað þetta varðar á landinu og sagðist Bjarni vera mjög ánægður með það. Bjarni sem hampaði fullri körfu af blómum, kaffi, kakói og súkkulaði sagðist ekki eiga einn heiðurinn af þessu, hann væri með prýðis gott starfsfólk með sér.

Þess má geta að þegar Bjarni tók við nú í vor þá hætti hann alfarið að leyfa reykingar innandyra í skálanum og að hans sögn þá hefur það gengið framar vonum. Reykingarfólk verið nokkuð sátt og þeir sem ekki reykja hafa verið sérstaklega ánægðir. Bjarni telur Brúarskála hafa verið í fararbroddi hvað þetta varðar á landinu og miðað við viðtökurnar þá ættu aðrir skálar hiklaust að feta í fótspor Brúarskála í þessu. 

Að lokum þá sagðist Bjarni vera mjög ánægður með sumarið. Umferðin fór hægt af stað í vor, en mikil umferð hefði verið er leið á sumarið og viðkoman mikil.

Starfsfólkið og Brúarskáli