21/11/2024

Vegurinn í Árneshrepp mokaður með dráttarvél

Vegagerðin á HólmavíkFrá því var sagt í Svæðisútvarpi Vestfjarða í dag að samgöngur í Árneshreppi hafi undanfarið verið í miklum ólestri og fólk ekki komist neitt nema innansveitar frá því um síðustu mánaðamót. Íbúar í Djúpavík hafi ekki komist frá staðnum þar til í fyrradag. Í dag hafi svo bóndi í Árneshreppi tekið sig til og mokað sjálfur á dráttarvél sinni svo fólk kæmist til Hólmavíkur og suður til Reykjavíkur en snjór á einum hálsi lokaði leiðinni.

Jón Hörður Elíasson hjá Vegagerðinni á Hólmavík sagðist í samtali við svæðisútvarpið ekki hafa frétt af óánægju íbúa í Árneshreppi. Ákveðið hafi verið að fresta mokstri í dag eftir samtal við snjóflóðadeild Veðurstofu Íslands. Engin mokstursáætlun sé á þessari leið yfir veturinn, líkt og á Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði en óvenjugott ástand hafi verið þennan veturinn. Búið sé að moka þrisvar sinnum frá Bjarnarfirði í Gjögur eftir áramótin. Á þriðjudaginn hafi verið mokað frá Gjögri í Djúpavík, en leiðin frá Djúpavík í Bjarnarfjörð hafi verið lokuð í á þriðju viku. Skoðað verði á morgun með mokstur á þeirri leið.