Fjárflutningabíll frá Sláturhúsinu á Hvammstanga sem sækja átti lömb í Árneshrepp í gær komst ekki á staðinn þar sem vegurinn var orðinn ófær. Mikið óhagræði hlaust af þessu, bæði fyrir sláturhúsið sem þurfti að útvega sláturfé annars staðar frá með stuttum fyrirvara og bændur í Árneshreppi sem höfðu tekið lömbin sem flytja átti frá á laugardaginn. Nokkur óánægja er meðal bænda fyrir norðan með að vegurinn hafi ekki verið opnaður í gær vegna þessara sérstöku flutninga. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er vegurinn einnig lokaður í dag.