22/12/2024

Vegaheiti á Ströndum

Aðsend grein eftir Matthías Lýðsson.
Nokkru eftir að nýjasti hluti Djúpvegar um Arnkötludal og Gautsdal var tekinn í notkun fór að heyrast nafnið Þröskuldar um veginn. Þetta nýja heiti kom nokkuð á óvart, enda ekki annað vitað en þokkaleg sátt væri orðin um að kalla nýja veginn Arnkötludal. Reyndar er víst örnefnið Þröskuldur og á við aflíðandi ás sem skilur að Gautsdal og Arnkötludal.

Í tveim síðustu tölublöðum Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar á árinu 2009 eru tveir ágætir pistlar um nafn á veginum, eftir þá G. Pétur Matthíasson og Viktor Arnar Ingólfsson. Þar setja þeir fram rök fyrir að velja Þröskuldanafnið. Það er hins vegar nokkuð ljóst að ekki eru allir heimamenn á Ströndum sáttir við þessa nafngift.

Það má nefnilega líka færa rök gegn þessu nýja nafni og verða nokkur þeirra tínd til hér. Merking orðsins Þröskuldur eða Þröskuldar vísar, auk hinnar hefðbundnu um gólfplanka milli tvegga dyrastafa, til að það sé hryggur, sker, eða hæð, þ.e. hindrun sem stendur í veginum. Nafnið vísar sem sagt til að um einhverskonar torleiði sé að ræða, en ekki nýjan greiðfæran veg, reyndar fjallveg sem getur reynst vegfarendum illfær í vondu veðri, en það á líka við um aðra fjallvegi landsins. Ef kenna á nýja vegi við þann stað sem veðurstöðin er, má þá ekki leiða að því rök, að vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði fengi nafnið Sæluhúshæð á Djúpvegi og vegurinn úr Hrútafirði til Hrófár héti þá Ennishálsvegur af því að veðurstöðin er þar.

Í grein sinni í Framkvæmdafréttum ritar Viktor Arnar að starfsfólk Vegagerðarinnar hafi lært að virða beri hefðir. Það er gott að vita, því það er upplýsandi að rifja upp nöfn þeirra leiða sem áður og fyrr tengdu Strandir við Reykhólasveit. Þær eru taldar að sunnan: Steinadalsheiði, Tröllatunguheiði, Bæjardalsheiði, Laxárdalsheiði, Vaðalfjallaheiði, Kollabúðaheiði, Steingrímsfjarðarheiði og Þorskafjarðarheiði. Allir þessir fjallvegir draga nafn af bæjum, fjörðum eða dölum, norðan eða sunnan heiðar. Vaðalfjallaheiði er eina undantekingin, enda Vaðalfjöllin magnþrungin náttúrusmíð. Nálægð bæjarins við heiðina eða lengd dala og fjarða stýrir nafninu. Þetta er hefðin. Starfmenn Vegagerðarinnar hljóta að virða hana, hafi Viktor Arnar rétt fyrir sér.

Arnkötludalur er lengsti hluti hinnar nýju leiðar og eðlilegt að kenna veginn við hann. Ef dalsnafnið vefst fyrir einhverjum, vegna þess að um fjallveg er að ræða, má benda á Svínadalur er líka fjallvegur.

Matthías Sævar Lýðsson,
bóndi og svæðisleiðsögumaður