22/11/2024

Varnargirðingar aflagðar

Árið 1938 var girt sauðfjárveikivarnargirðing úr Steingrímsfirði í Þorskafjörð, 9 strengja gaddavírsgirðing með rekaviðarstaurum. Vinnuflokkar úr nærsveitum unnu að því að reisa hana og efnið var reitt á hestum. Tveim árum síðar var girðingin tvöfölduð. Í dag hafa strandir.saudfjarsetur.is sannfrétt að ákveðið sé að hætta viðhaldi þessarar girðingar og við fjallskil í haust og væntanlega framvegis verði fjáreigendum heimilt að sækja sitt fé yfir þessa aflögðu varnarlínu og flytja til síns heima. Á sama hátt verður að ætla að nú geti bændur í Árneshreppi keypt hrúta í Tungusveit, eða öfugt, án þess að þurfa að sækja um leyfi.

Varnargirðingin úr Ísafirði í Kollafjörð verður líka aflögð og Vestfirðir allir því eitt svæði. Hinsvegar verður lögð áhersla á að halda við varnargirðingu úr Bitru í Gilsfjörð. Rökin sem færð eru fyrir þessum ákvörðunum eru að ekki hafi greinst smitandi sauðfjársjúkdómar í þessum hólfum í 20 ár og ekki sé til fjármagn til að halda við öllum varnargirðingum.

Þrátt fyrir að breytingar hafi legið í loftinu í nokkurn tíma vekur framkvæmd þeirra nokkra furðu. Varnargirðingunni í Steingrímsfirði var haldið við í sumar og umsjónarmanni ókunnugt um að ekkert viðhald var á vesturhluta girðingarinnar. Eins virðast Sauðfjárveikivarnir ekki hafa haft fyrir að kynna þessar ákvarðanir sveitarstjórnum eða bændum, þrátt fyrir að smalanir séu byrjaðar og aðeins vika í fyrri leit við Steingrímsfjörð.  

Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur bændur til að forðast flutning sauðfjár milli svæða, ekki fara með óhrein tæki og vélar sem komast í snertingu við fé milli sveita og gæta að eigin þrifnaði er farið er milli fjárhúsa. Það eru enn miklir hagsmunir fyrir Strandamenn að eiga heilbrigt fé.