26/12/2024

Var átta daga í einni ferðinni

Viðtal við Valdimar Ásmundsson
Nú í desember voru liðin 50 ár síðan fyrirtækið Guðmundur Jónasson hóf vetraráætlun á Strandir, en fyrirtækið fór sína síðustu ferð í dag. Fréttaritarinn Kristín S. Einarsdóttir brá sér í bíltúr með Valdimar Ásmundssyni í tilefni af 50 ára afmælinu, en hann hefur ekið þessa leið í allmörg ár. Yfir vetrartímann rennir Valdimar vikulega í hlað á Hólmavík, um klukkan hálf þrjú á föstudögum. Eftir að hafa losað þar ýmsan varning liggur leiðin á Drangsnes, að þessu sinni í góðu veðri og ágætri færð ef undan er skilin dálítil hálka. Á mælaborðinu er sérleyfið sem kveður á um áætlun á Strandir allt árið, undirritað 7.desember 1955, en fram að því voru almenningssamgöngur á Ströndum bundnar við sumartímann.

"Þetta var nú slóði frekar en vegur …"

Sjálfur hóf Valdimar að aka þessa leið í ágúst 1965 og var þá til vors 1966. Frá 1991 hefur hann síðan ekið þessa leið samfleytt. Jafnhliða og í millitíðinni hefur hann sinnt ýmsum skrifstofustörfum og öðrum akstri hjá Guðmundi Jónassyni. Ferðatilhögun hefur breyst nokkuð í gegnum tíðina, t.a.m. á þann veg að fyrst var ekið norður einn daginn og suður daginn eftir, en með betri vegum er farið fram og til baka sama daginn.

Talið berst fljótlega að vegunum og segir Valdimar gífurlega breytingu hafa orðið á þeim. Fyrstu árin lágu vegirnir niður við sjó í Bitrunni og Kollafirðinum. "Þetta var nú slóði frekar en vegur og var mun verra að hafa vegina svona niðri við sjó vegna mikils sjógangs. Þá komst maður ekki fyrir Forvaðann nema að sæta sjávarföllum,"  segir Valdimar. Eftir þetta var vegurinn færður lengra upp í hlíðarnar og svo aftur neðar, þar sem núverandi vegarstæði er.

Aðspurður telur Valdimar nýja veginn yfir Stikuhálsinn vera besta kaflann hér á Ströndum, þar sé nánast aldrei snjór. "Og svo hefur auðvitað Kollafjörðurinn lagast mjög mikið og Selströndin þar sem við erum stödd núna. Reyndar hefur ekki komið snjór síðan þessi vegur kom og ekki reynt á hann," segir Valdimar. Hann segir Kollafjörðin sunnanverðan og veginn yfir Ennishöfðann hins vegar vera hvað leiðinlegustu kaflana.

Farþegum hefur fækkað mjög

Talið berst að farminum sem Valdimar flytur og allt snýst um, farþegunum. "Þeim hefur fækkað gríðarlega, við eigum þetta allt til skráð. 1990-1991 voru þeir 1900 og var þetta nokkuð jafnt, norður og suður. Í kringum 2000 fór þetta niður í 1100-1500 og við höfum verið með svona 400-500 á ári síðan, en þá fóru Stjörnubílar að aka þessa leið yfir sumartímann í kjölfar þeirra breytinga sem Vegagerðin gerði, að aðeins einn áætlunarbíll færi yfir Holtavörðuheiði. Uppistaða farþeganna síðustu árin eru eldra fólkið og börn, þeir sem ekki keyra bíl. Þetta eru allt saman ljómandi farþegar og mér hefur alltaf þótt vænt um Strandamenn. Þeir hafa reynst mér einstakt fólk og ég hef kynnst mörgum hér."

Eftir allan þennan tíma má reikna með að Valdimar hafi einhvern tíma komist í hann krappann? "Mikil lifandi ósköp, ég var til dæmis einu sinni átta daga í einni ferðinni, lokaðist inni á Hólmavík, en það fór ákaflega vel um mig og ég las ósköpin öll af bókum sem Valdi gamli skó átti. Einnig gisti ég oft í Guðlaugsvík. Eitt sinn þurfti ég að gista bæði í Fornahvammi og Guðlaugsvík í sömu ferðinni. Þá var snúið við af Holtavörðuheiðinni og farið niður í Fornahvamm, þar sem fjöldinn allur af fólki var fyrir. Var ég þá sendur áleiðis niður í Borgarnes á móti bíl sem var að koma með mat og mjólk ofan í allt þetta fólk."

"Næsta dag komst ég í Guðlaugsvík með miklum snjómokstri og var það meira og minna handmokstur. Moksturstækin héldu áfram hinu megin í Hrútafjörðinn, en ég einn á Strandir, því ég var víst á trukk, sögðu þeir." Valdimar var þó ekki alveg einn á báti því þegar í Guðlaugsvík kom var þar staddur Benedikt Grímsson og tókst honum á ná símasambandi við Grím son sinn heima á Kirkjubóli í Tungusveit. Safnaði hann liði í sveitinni og lét moka Deildarbrekkuna sem oft var mesti farartálminn á þessari leið. Valdimar minnist líka á staur sem var í brekkunni fyrir utan Litla-Fjarðarhorn á sínum tíma, þannig að hægt var að spila bílana upp brekkuna og stóð Guðmundur Jónasson fyrir því að láta setja staurinn upp. "Hann var varla sverari en símastaur, en það dugði alveg."

"Það var ekki fyrr en 1995 sem kom almennilegur snjór"

Þrátt fyrir að Valdimar hafa lent í ýmsu telur hann að það hafi oft verið erfiðara á öðrum bílstjórum en sér, bæði á undan og eftir. "Það var ábyggilega oft erfitt hjá Einari Valdimarssyni sem keyrði frá 1966 fram yfir 1980 og Sævari Sigurgeirssyni sem tók við af honum. Ég var tiltölulega heppinn, það var ekki fyrr en 1995 að það kom almennilegur snjór. Ég á myndir af bíl í snjó í Heyfleyg og Fagurbalavík frá þessu ári. Snjógöngin voru 14 metra djúp og þó var jarðýta búin að ýta ofan af áður en blásið var. Farþegar komu gjarnan með báti frá Drangsnesi þennan vetur og erfitt var að opna Bjarnarfjörðinn. Snjógöng frá Stakkanesi að Grænanesi voru farin að síga saman að ofan og skemma húsin á flutningabílunum sem fóru gegnum þau. Í ferðunum var maður yfirleitt með snjómoksturstæki á undan sérog það var mjög notalegt."

"Erfiðasta ferðin á þessum tíma var þegar ég þurfti að ganga á undan snjóruðningstækinu frá Bræðrabrekku að Broddadalsá og hlaupa alltaf til baka og sækja bílinn. Ég var alls tuttugu og sjö tíma í þeirri ferð, þurfti að fara strax suður aftur til að lokast ekki inni á Hólmavík." Valdimar man þetta greinilega eins og gerst hefði í gær, þó liðinn sé áratugur, segist hafa lagt upp úr Reykjavík kl. 10 á þriðjudagsmorgni og komið þangað aftur kl. 13 á miðvikudegi. En þetta var fyrir tíma ökuritanna og Valdimar segir að málið hafi einfaldlega verið að koma farþegum og flutningi á áfangastað: "Sem betur fer voru þessir menn sem unnu hjá Guðmundi Jónassynir hraustir og vel gerðir."

"Mér finnst miklu skemmtilegra að vera farþegi …"

Áður en Valdimar hóf störf hjá Guðmundi Jónassyni var hann búinn að keyra síðan 1954, fyrst vöruflutningabíl. Tveimur árum síðar keypti hann rútu með Sæmundi Sigmundssyni og þeir hófu sérleyfi á leiðinni Borgarnes-Reykjavík. Valdimar starfaði átta ár með Sæmundi, en hefur starfað hjá Guðmundi Jónassyni síðan. Starfsævi hans sem bílstjóri spannar því rúma hálfa öld og næst liggur því við að spyrja hvað haldi mönnum svona lengi í starfi sem þessu? "Áður fyrr var hægt að hafa góðar tekjur ef menn voru hraustir, þetta var betur borgað en margt annað. Ég get ekki sagt að ég hafi gaman af að keyra, mér finnst miklu skemmtilegra að vera farþegi í bíl hjá öðrum, þá get ég horft í kringum mig og sé fullt af hlutum sem ég hef alls ekki séð áður."

"Mér þykir gaman að umgangast fólk, þetta er lifandi starf, öðruvísi en að keyra mjólkurbrúsum, það er þáttur í þessu. Áður fyrr var líka ákveðinn sjarmi yfir þessu, maður leit upp til þessara manna. Rútubílstjórarnir voru eðlilega betur klæddir en flutningabílstjórarnir, þeir voru flottir. Einn góður vinur minn sem keyrði lengi var afskaplega glæsilegur, í leðurstígvélum, útvíðum reiðbuxum og með kaskeyti. Ég lærði mjög mikið af þessum mönnum, lærði að keyra hjá þeim. Þetta voru snillingar." Valdimar sér ekki eftir að hafa farið aftur að keyra eftir nokkur ár í skrifstofuvinnu, telur aksturinn góða tilbreytingu frá þeirri vinnu.

Hálkueyðingu er áfátt

Í tilefni af tíðarfarinu undanfarið berst talið að ástandi vega og hálkuvörnum. Valdimar nefnir að þeir malarvegir sem eftir eru á Ströndum séu vissulega ekki í takt við tímann, þeir séu þokkalega sléttir en ofaníburði sé ábótavant. Einnig nefnir hann að hálkueyðingu sé áfátt og tekur sem dæmi að þennan dag hafi verið autt frá Ísafirði að Steingrímsfjarðarheiði en flughált í Hrútafirði og Kollafirði. Á því hljóti að vera einhver skýring. "Það er ekki í lagi að vera á fljúgandi hálku þó vegurinn sé beinn og breiður."

Þegar hér er komið sögu rennir Valdimar að Kaupfélaginu á Drangsnesi. Hann bendir á lítið bárujárnsklætt hús þar rétt fyrir neðan, þar sem hann segist hafa gist fyrstu árin. "Þar bjó gömul þýsk kona," segir hann og hugsar greinilega með hennar til hlýju, líkt og annarra Strandamanna. Eftir að hafa borið varning inn í Kaupfélagið á Drangsnesi og kastað kveðju á starfsfólk er boðið í kaffi í heimahúsi. Móttökurnar eru hlýlegar og heimilislegar, þrátt fyrir að húsráðendur þau Tryggvi Ólafsson og Ragnhildur Elíasdóttir séu ekki heima við. Búið að bera heimabakkelsi á borð og hita ilmandi kaffi.

"Mokaði stanslaust í þrjá tíma án þess að blása úr nös"

Á bakaleiðinni til Hólmavíkur rifjar Valdimar upp að hann hafi fjórum sinnum keyrt fram á snjóflóð á Ströndum. Eitt þessara flóða var við Hvalsárhöfða og voru þá 10 skíðamenn frá Ísafirði með honum í för, nýkomnir úr skíðaferð erlendis frá. Trúðu þeir því nú mátulega að þetta væri flóð fyrr en þeir stigu út úr bílnum og ummerkin leyndu sér ekki. Moksturinn gekk þó greiðlega, enda nóg af hvoru tveggja, skóflum og hraustmennum, í  bílnum.

Áfram er ekið nokkra stund og stoppað við afleggjarann að Bassastöðum, þar sem Guðbrandur bóndi Sverrisson bíður með pakka. Það fer vel á með þeim Valdimar og þeir skiptast á hressilegum kveðjum og þegar Guðbrandur nefnir borgun undir pakkann hristir Valdimar hausinn, hann eigi þetta margfalt inni. Og Bassastaðabóndinn veifar brosandi, áfram er ekið, því ekki mega farþegarnir bíða. Valdimar segir frá því að Brandur á Bassastöðum hafa oft hjálpað sér með mokstri á traktor og með skóflu. Þá hafi hann jafnvel staðið í snjó upp undir hendur og kvartað yfir hve skóflan væri smá: "Hann mokaði stanslaust í þrjá tíma án þess að blása úr nös."

"Ég á eftir að koma hér oft og mörgum sinnum"

Sjálfur kippir Valdimar sér ekki mikið upp við vont veður og ófærð, telur að það valdi kannski meira andlegri þreytu en líkamlegri. "Það reynir til dæmis mjög á einbeitinguna að stara allan daginn í kantana í blindbyl. Mér er verst við rok og hálku, það eru aðstæður sem maður ræður illa við." Á þessum ferðum sínum hefur Valdimar þrisvar lent út af og einu sinni stórskemmt bílinn, en þá var hann góðu heilli einn í bílnum.

Í dag, þann 30. desember, fer Valdimar sína síðustu áætlunarferð á Strandir og þá tekur Hópferðamiðstöðin við áætlunarferðum þangað. Valdimar lýsir yfir áhyggjum sínum af þeim tímamismun sem fram kemur í hinni nýju áætlun. Sér virðist sem farþegar þurfi að bíða tvær klukkustundir og þrjú korter í Brú eftir ferð áfram suður, og ekki komi skýrt fram hvernig þetta henti farþegum sem ætla áfram norður í land. Úr þessu telur hann að megi bæta með betri skipulagningu og samræmingu, það verði ef til vill gert þegar reynsla kemst á hið nýja fyrirkomulag. 

Hjá honum sjálfum taka við önnur störf hjá fyrirtækinu sem hann hefur þjónað í rösklega hálfa öld. Aðspurður um hvort það verði eftirsjá fyrir hann að aka ekki lengur á Strandirnar segir Valdimar: "Ég á eftir að koma hér oft og mörgum sinnum. Nú fer ég fyrst að koma hingað, þetta er bara vinna. Ég er búinn að lofa að heimsækja marga hér og mér finnst mjög gaman að keyra Strandirnar."